Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. Fram kemur að unnið verði að umbreytingu þjónustunnar í samráði við fagfólk og hagaðila.
Greint var því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að leggja eigi starfsemina niður vegna sparnaðaraðgerða hjá borginni en borgarstjórn samþykkti á fundi sínum á mánudagskvöld fyrstu fjárhagsáætlun meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar.
Fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 að samþykkt hefði verið að leggja niður starfsemi Vinjar á Hverfisgötu. Vin er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir sem hefur verið rekið í um þrjátíu ár. Borgin tók við rekstrinum af Rauða krossinum fyrir aðeins rétt rúmu ári.
Miklar hagræðingaraðgerðir felast í áætluninni og stendur til dæmis til að leggja niður tuttugu hjúkrunarrými í Seljahlíð, leggja niður unglingasmiðjurnar Stíg og Tröð, að selja sumarbústað borgarstjórnar, fella niður afslætti langtímanotenda bílastæðahúsa, draga úr fjárframlögum til kirkjugarða og svo mætti lengi telja.
Í fréttatilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér síðdegis í dag kemur fram að fjallað sé um breytingar á Vin, Stíg, og Tröð í stórum pakka af hagræðinga- og umbótatillögum sem samþykktar voru í borgarstjórn á þriðjudag og er það hluti af þeim tillögum sem nú fara til frekari vinnslu og útfærslu í fagráði, í þessu tilfelli velferðarráði.
Meðal þess sem skoðað verður er hvort hægt verði að útvíkka þjónustuna og ná til fleiri notenda, og hvort hægt verði að sameina annarri þjónustu.
„Reykjavíkurborg leggur áherslu á að ekki komi til skerðingar á lífsgæðum þess hóps sem sækir Vin og þeirra unglinga sem njóta þjónustu smiðjanna,“ segir ennfremur í tilkynningunni.