Það fór ekki framhjá mörgum að lögreglan var með aukinn viðbúnað í miðborg Reykjavíkur um helgina vegna hnífaárásarinnar í Bankastræti Club fyrr í mánuðinum og hótana um hefndarárás. Næturlífið í borginni var þó með rólegu móti og í samtali við Vísi segir Jói að dyravarðavaktin hafi gengið áfallalaust fyrir sig.
Jói og Björn sáu þó ekki einir um dyravörsluna því með þeim var Damon Younger leikari ásamt Jóni Birgissyni. „Við köllum hann alltaf Jón bílstjóra. Við erum semsagt allir æfingafélagar í World Class. Þetta gekk bara rosalega vel hjá okkur. Það þorði enginn í okkur Bjössa. Og miðað við allt lögregluliðið og gæsluna sem var í gangi þá var þetta öruggari helgi en nokkurn tímann áður, og ég held að það verði þannig áfram. Maður treystir lögreglunni alveg, þeir standa vaktina mjög vel.“
Slagsmál og ryskingar alltaf verið til staðar
Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem Jói bregður sér í dyravarðahlutverkið. „Maður stóð nú vaktina fyrir utan Casablanca hérna í gamla daga,“ segir hann og bætir við að í raun sjái hann lítinn mun á skemmtanalífinu núna og fyrir þrjátíu árum.
„Það er nefnilega þannig að það hafa alltaf verið slagsmál og vesen í bænum, það hefur ekkert breyst. Það hefur alltaf verið hættulegt að fara niður í bæ. Hérna áður fyrr var alveg jafnmikið um slagsmál og ryskingar og núna, bjórinn var ekki leyfður þannig að menn skvettu í sterku víni og duttu vel í það. Menn slógust um eina konu, svona eins og í dýraríkinu.
Ég vil nú eiginlega meina það að það hafi verið eðlileg slagsmál hérna í gamla daga. Eina er að ég man ekki eftir neinum vopnaburði í gamla daga, ætli það sé ekki það helsta sem hefur breyst,“ segir Jói jafnframt en þeir félagar hyggjast bregða sér aftur í dyravarðahlutverkið fljótlega. „Við gerum það alveg örugglega. Þetta var mjög skemmtilegt.“