Tindastóll vann bikarleikinn örugglega á móti Haukum og sigur þeirra á móti Grindavík var líka nokkuð sannfærandi. Það virðist þó vera þessi regla sem er hættuleg fyrir Tindastólsmenn.
Subway Körfuboltakvöld sýndi hversu nálægt Stólarnir voru að brjóta regluna aftur en aðeins þrír erlendir leikmenn mega vera inn á vellinum á sama tíma.
„Þetta mál á milli Tindastóls og Hauka þegar Stólarnir voru með fjóra erlenda leikmenn inn á þegar það mega bara vera þrír eins og flestir sem horfa á þennan þátt vita,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Subway Körfuboltakvölds.
„Það voru fjórir leikmenn inn á í einu vítaskoti hjá Haukum og sagan endurtók sig næstum því í Grindavík. Hér sjáum við að það er dæmt víti og Siggi Þorsteins er að koma af velli. Drungilas er að koma inná,“ sagði Kjartan Atli.
„Þarna eru þegar inn á þeir Zoran Vrkic, Taiwo Badmus og Keyshawn Woods. Það fyrsta sem Vladimir Anzulovic þjálfari gerir er að biðja um leikhlé áður en dómarinn nær að senda boltann á Valdas. Þetta er svakalegt,“ sagði Kjartan Atli.
„Nú var Grindavík inn á með fimm Íslendinga í einu, er það ekki bannað,“ grínaðist Hermann Hauksson með.
„Það er eins og það sé komin venja fyrir því að það sé bannað. Það ætti að setja það í sextándu grein reglugerðar KKÍ um körfuknattleiksmót,“ sagði Sævar Sævarsson léttur en hélt svo áfram:
„Þetta er svo klaufalegt að þetta daðrar við að vera lúðalegt. Þeir ættu að setja á körfuboltaspjaldið hjá honum Vlad þjálfara: Íslenska fánann og einhvern fána sem segir honum hverjir eru útlendingar. Það þarf að setja þar einhverjar skotheldar myndir fyrir hann,“ sagði Sævar.
„Það vantar ekki þjálfara á bekkinn hjá þeim til þess að hjálpa til við þetta,“ sagði Kjartan Atli.
Það má sjá þetta atvik og umfjöllunina hér fyrir ofan.