Tilkynnt var um endalok Stjörnutorgs í síðasta mánuði og tóku sumir fréttunum nærri sér. Nýtt veitinga- og afþreyingarsvæði Kringlunnar hefur fengið nafnið Kúmen og verða nýir staðir opnaðir þar í bland við þá eldri.
Stjörnutorg hefur í gegnum árin verið hreiður Verslinga í matarhléum en þeir voru allt annað en sáttir í kveðjuhófinu í dag.
„Þetta er alveg hræðilegt, ég mun sakna torgsins. Þetta á ekki við menntskælinga - að vera að versla við einhverja svona rándýra matsölustaði, þeir vilja versla á torginu,“ segir Erling Edwald sem viðstaddur var kveðjuhófið í dag. Vinur hans, Þór Trausti, tekur undir og segir að yfirbragð nýja veitingasvæðisins beri með sér að veitingar þar verði mun dýrari.
„Ég skil pælinguna að vera að gera þetta svona fínt og flott og svoleiðis. En það er svo mikill persónuleiki í Stjörnutorgi. Þú ert með svo náttúrulegt ljós hérna og krúttlega bása. Þetta er svo mikil sameining, mér finnst ljótt að það sé verið að taka þetta í burtu frá okkur. Þannig að ég er súr,“ segir Viktor Sigurðsson.
Finnst þér þetta aðför gegn æsku ykkar?
„Þvílík, klárt mál.“
Vísir var í beinni útsendingu frá kveðjuhófinu á Stjörnutorgi í dag. Hægt er að horfa á upptöku af útsendingunni hér að neðan.