„Já, mjög svo og líka bara hvernig við unnum þennan leik, mér fannst það skipta máli. Þegar maður er í svona taphrinu þá þarf maður bara að gera alla skítavinnuna til að ná að klóra sig í fyrsta sigurinn og mér fannt við gera það rosalega vel,“ sagði Emil Karel að leik loknum.
„Það var mikil ástríða og mikil stemning. Við vorum að fagna mikið og þetta er bara nákvæmlega það sem við þurftum. Þorlákshafnarbúar tóku vel við sér í stúkunni og hjálpuðu okkur að koma þessu yfir endalínuna.“
Þórsarar lentu í áfalli þegar Styrmir Snær Þrastarson var rekinn úr húsi með tvær tæknivillur um miðjan þriðja leikhluta. Í stað þess að hengja haus þjöppuðu Þórsarar sér saman og við tók magnaður viðsnúningur þar sem Emil var í broddi fylkingar.
„Það er annað hvort sem við getum gert. Við getum brotnað niður eða eflst við þetta og mér fannst við gera það vel. Mér fannst ég og Dabbi [Davíð Arnar Ágústsson] svolítið leiða það að koma geðveikinni í gang. Við vorum svolítið að berja á þeim í vörninni og þá fengum við auðveld stig hinumegin.“
„Og svo var Vinny [Vincent Shahid] bara að búa allt til fyrir okkur. Gæinn gat bara valið hvað hann vildi gera og svo bara að sjá hvað Fotios [Lampropoulos] hefur líka orðið betri eftir að Vinny kom, hann er að fá þægilegri skot fyrir sjálfan sig. Svo erum ég og Dabbi líka að fá meira rými þannig að bara hrós á allt liðið fyrir frábæra frammistöðu.“
Þórsarar heimsækja ÍR-inga næstkomandi fimmtudag í sjöundu umferð Subway-deildar karla og Emil segir að liðið muni klárlega taka sigurinn í kvöld með sér á koddann og reyna að nýta hann í næsta leik.
„Að sjálfsögðu. Það er bara sama hugarfar þegar við förum í leikinn á móti ÍR. Við þurfum bara að leggja okkur alla í þetta því við getum ekki verið að slaka á núna. Núna þurfum við bara að bæta í og bæta okkar leik,“ sagði Emil að lokum.