Svæðið sem taka má miðjuna á var stækkað verulega og leikmenn mega vera á hreyfingu sem eykur möguleika liða á að spila hratt. Þá má bara gefa fjórar sendingar eftir að höndin kemur upp til marks um leiktöf í stað sex áður.
Í Olís-deild karla hefur mörkum að meðaltali í leik fjölgað um rúmlega þrjú frá síðasta tímabili. Það er í takt við þróun í öðrum deildum í Evrópu.
Mörkum hefur fjölgað í öllum helstu deildum Evrópu fyrir utan þær norsku og dönsku. Markafjöldinn í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni hefur einnig aukist. Í síðastnefndu deildinni hefur mörkunum fjölgað um rúmlega fjögur. Það ber þó vissulega að taka með í reikninginn að aðeins tveimur af tíu umferðum riðlakeppninnar er lokið.
Bera mætti þetta saman við breytingar sem voru gerðar á handboltareglunum skömmu eftir aldamót. Þá þurftu varnarmenn ekki lengur að vera komnir á eigin vallarhelming áður en miðja var tekin.
Íslenska landsliðið undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar var eitt það fyrsta til að ná tökum á þessari breytingu og það átti stóran þátt í góðu gengi Íslands á EM 2002.
Þá voru skoruð 52 mörk að meðaltali í leik en á stórmótinu þar áður, HM 2001, voru mörkin fimmtíu að meðaltali í leik.
Í efstu deild karla fjölgaði mörkunum líka. Tímabilið 2000-01 voru mörkin 49,9 að meðaltali í leik en tímabilið 2001-02 voru þau 52,6.