Enski boltinn

Andri Lucas setti sigur­markið í Íslendingaslagnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Andri Lucas skoraði sitt fjórða mark fyrir Blackburn í kvöld. 
Andri Lucas skoraði sitt fjórða mark fyrir Blackburn í kvöld.  Vísir/Getty

Andri Lucas Guðjohnsen heldur áfram að heilla með liði Blackburn Rovers og skoraði sigurmarkið í 2-1 sigri á útivelli gegn Preston North End, liði Stefáns Teits Þórðarsonar.

Íslensku landsliðsmennirnir voru báðir í byrjunarliðinu í Lancashire slagnum, þegar Preston tók á móti Blackburn í 16. umferð ensku Championship deildarinnar.

Staðan var jöfn í hálfleik en ekki markalaus eins og allt stefndi í. Lewis Miller kom Blackburn yfir á 45. mínútu en Alfie Devine svaraði strax og jafnaði leikinn á fyrstu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks fyrir Preston.

Stefán Teitur var svo tekinn af velli á 57. mínútu seinni hálfleiks en fimm mínútum síðar skoraði Andri Lucas sigurmark leiksins.

Andri skoraði markið með skalla af stuttu færi, þegar hann lúrði á fjærstönginni eftir fyrirgjöf Ryoya Morishita úr aukaspyrnu.

Andri komst þar með aftur á blað eftir að hafa ekki tekist að skora í síðustu fjórum leikjum, tveimur með Blackburn og tveimur landsleikjum með Íslandi gegn Aserbaísjan og Úkraínu.

Þetta var fjórða mark hans á tímabilinu en hin þrjú mörkin voru skoruð í tveimur leikjum gegn Southampton og Leicester um síðustu mánaðamót.

Blackburn fór með sigrinum upp í 15. sæti deildarinnar og rændi Preston tækifærinu til að komast upp í 2. sætið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×