Átta grunnskólar tóku þátt en það voru Hlíðaskóli, Seljaskóli, Klettaskóli, Víkurskóli, Háteigsskóli, Laugalækjarskóli, Sæmundarskóli og Foldaskóli.
„Seljaskóli með atriðið Yndislegt líf og Sæmundarskóli með atriðið Af hverju ég? komust áfram í úrslitin.
236 ungmenni úr Reykjavík tóku þátt í atriðunum og sýndu hæfileika á sviði sviðslista í frumsömdum atriðum sem þau hafa samið sérstaklega fyrir stóra sviðið í Borgarleikhúsinu vegna Skrekks,“ segir í tilkynningunni.
Hagaskóli og Fellaskóli komust áfram á fyrsta undanúrslitakvöldinu á mánudag.

Undanúrslit Skrekks fara fram dagana 7., 8. og 9. nóvember í Borgarleikhúsinu, en að þessu sinni taka 614 unglingar úr 24 skólum þátt í keppninni. Átta skólar munu komast í úrslit sem fara fram 14. nóvember.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að atriðin í ár fjalli um sjálfsmynd unglinga, áhrif samfélagsmiðla, tónlistar- og danssögu, missi, einelti, andlega erfiðleika, upplifun ungmenna af erlendum uppruna, mikilvægi þess að njóta lífsins og hafa gaman, ádeilu á íslenskt samfélag, heimilisofbeldi og ástarsögur. Unglingarnir nýta allar sviðslistir í atriðin; tónlist, dans, leiklist og gjörninga.