Í nýjasta þættinum af The Kardashians fór Kris í mjaðmaskiptiaðgerð í kjölfar mikils sársauka síðustu mánuði. Þó svo að aðgerðin hafi gengið vel opnaði hún á samræður um dauðann og óskir fjölskyldunnar þegar þar að kemur.
„Manstu þegar þú vildir að askan þín, þú vildir láta brenna þig og láta búa til hálsmen fyrir okkur?“ Spurði Khloé mömmu sína þegar hún heimsótti hana eftir aðgerðina. „Það er frábær hugmynd!“ svaraði Kris. Hún tók það ekki í má þegar dóttir hennar sagði að það væri skrítið „Það er það ekki“.
Grafhýsi
Í símtali við yngstu dóttur sína Kylie rifjaði Kris upp þegar hún var að byrja að skoða grafhýsi fyrir fjölskylduna. Khloé benti á það hversu margir einstaklingar væru í fjölskyldunni og hversu mörg börn þau væru að eignast. Kylie Jennar stakk upp á því að leyfa bara ákveðið margar kynslóðir á reitnum. „Það er eins og skemmtistaður, nei þú ert ekki á listanum,“ sagði Kris þá og hló.
Khloé segir fjölskylduna reglulega ræða erfðaskrár og óskir sínar ef eitthvað hræðilegt gerist: „Ef ég er í dái vil ég samt láta gera neglurnar mínar einu sinni í viku og það er mín ósk. Því fólk á eftir að koma að heimsækja mig,“ segir hún.
Erfitt að eldast
Áður en Kris fór í aðgerðina í þættinum opnaði hún sig um það hversu erfitt það væri að eldast. „Þú áttar þig á því að þú hefur ekki það mikinn tíma eftir. Allt í einu getur þú ekki gert allt sem þú gast. Mjöðmin er farin, hnéð er í hnjaski. Ég er með augnsýkingu, ég sé ekki. Ég er með sjónvarpið allt of hátt stillt og Corey segir að ég heyri ekki neitt. Mér líður eins og Humpty Dympty.“

Hún segir það erfitt að átta sig á því að hún sé að eldast því að henni líði alltaf eins og að hún sé fertug, í dag er hún 66 ára.