Þrátt fyrir að rúmir sjö mánuðir séu nú síðan að öllum opinberum sóttvarnaraðgerðum var hætt hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins má enn greina áhrifin af faraldrinum. Til að mynda á Reykjalundi en í hverri viku berast þangað umsóknir um aðstoð frá fólki sem glímir við langtímaveikindi eftir að hafa fengið Covid-19.
„Núna eru um tuttugu og fimm manns með þessa greiningu sem er þá langvinn einkenni eftir Covid. Það þýðir það að fólk er með einkenni sem að eru alvarleg enn þá þremur mánuðum eftir veikindin,“ segir Stefán Yngvason framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi.
Stefán segir einkennin oft vera mæði, verki af ýmsu tagi, þreytu og heilaþoku. Þeim sem koma á Reykjalund er boðið upp á sex vikna meðferð en hundrað tuttugu og fimm hafa þegar lokið meðferð vegna langtímaáhrifa af Covid-19. Langflestir eru aldrinum fertugt til sextugs.
Heilbrigðisstofnanir víða um heim takast nú á við eftirköst faraldursins en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur hvatt stjórnvöld til að bregðast við og grípa til aðgerða vegna þessa.
„Við sjáum það hjá WHO að þeir hafa sett þetta mjög á oddinn sem stórt og alvarlegt vandamál að fólk er óvinnufært vegna langvinnra einkenna eftir Covid. Þeir telja að bara í Evrópulöndum, fimmtíu og þremur Evrópulöndum, séu um sautján milljónir með langvinn einkenni eftir Covid og stór hluti þeirra sé ekki enn þá kominn til starfa.“

Hann telur að búast megi við að umsóknir haldi áfram að berast næstu misserin.
„Það er nú þannig að eftir að ómíkron hefur komið þá eru miklu fleiri sem veikjast en þeir veikjast ekki eins mikið en það virðist sem að það séu þá margir samt sem að fái langvarandi Covid einkenni og þar sýnir tölfræðin að konur fá frekar langvinn einkenni heldur en karlar.“
