Ný regla, svokölluð þriggja ára regla, var tekin upp í sumar um erlenda leikmenn í Subway-deildinni. Aðeins þrír erlendir leikmenn geta verið á vellinum á sama tíma, en fjölmargir með erlent vegabréf eru þó undanþegnir því að teljast sem erlendir leikmenn vegna reglna um búsetu hér á landi. Þeir sem hafa átt þriggja ára samfellda búsetu á Íslandi teljast í því samhengi sem Íslendingar.
Hernández hefur leikið í heimalandinu síðustu tvö tímabil, eftir að hafa leikið með Þór Akureyri tímabilið 2019 til 2020, en hefur verið með skráð lögheimili hér á landi frá 2019 og ætti því, samkvæmt Þórsurum, að falla undir þriggja ára regluna sem Íslendingur.
Samkvæmt heimildum Körfuboltakvölds fengu Þórsarar skrifleg svör frá Körfuknattleikssambandi Íslands sem staðfestu að svo væri. Hernández enda haft skráð lögheimili hér á landi í þrjú ár. Þórsarar stukku því til og sömdu við Hernández á þeim forsendum.
Þegar líða tók á sumarið sendi KKÍ hins vegar bréf á liðin í deildinni þar sem fram kom að leikmenn þyrftu að hafa búið hér á landi í öll þau þrjú ár, og dygði skráða búsetan því ekki til.
Þórsarar sitja því uppi með leikmann sem þeir sömdu við í þeirri trú að hann teldist sem Íslendingur, en gerir það ekki. Fimm erlendir leikmenn, samkvæmt skilgreiningu KKÍ, eru á mála hjá félaginu en aðeins þrír þeirra geta verið inni á vellinum á sama tíma.