Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Hagskælingar voru fluttir í húsnæðið í Ármúla í upphafi árs eftir að upp komst um myglu í einni álmu skólans síðasta vetur. Nýverið hafi þó komið í ljós að brunavörnum væri ábótavant í Ármúlanum en til stóð að nemendur yrðu þar fram yfir áramót.
Fulltrúar Reykjavíkurborgar, þar á meðal frá skóla- og frístundasviðið og umhverfis og skipulagssviði, funduðu með skólaráði Hagaskóla, foreldrafélagi og trúnaðarmönnum starfsfólks í vikunni þar sem fulltrúar slökkviliðsins kynntu niðurstöður sínar.
Niðurstaðan fundarins var að skoða annað hvort flutning í Korpuskóla eða að húsnæðið í Ármúla yrði tvísetið, líkt og staðan var í gær.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, segir í samtali við Morgunblaðið segir flutning í Korpuskóla síðri kostinn en að ákveðin vandamál fylgi einnig seinni valkostinum, enda hafi það í för með sér skerðingu á viðverutíma nemenda þar sem hópurinn er tvískiptur.
„Aðalvandamálið í Ármúla er að það eru of margir nemendur miðað við rýmingarleiðir, sérstaklega á þriðju hæðinni og hluta annarrar hæðar. Það er mikið keppikefli hjá skólanum að nemendahópurinn sé ekki margskiptur,“ sagði Helgi en ákvörðun verði vonandi tekin bráðlega.
Borgarráð samþykkti í sumar tillögu um stækkun á Hagaskóla samhliða endurnýjun á húsnæði skólans. Töluverð uppbygging er framundan í skólahverfinu og er búist við áframhaldandi fjölgun nemenda í skólanum á næstu árum. Áætlaður framkvæmdatími er þrjú ár.