Skoðun

Ekkert barn þarf að sitja eftir

Guðbjörg R. Þórisdóttir skrifar

Á þeim sex árum sem liðið hafa frá því lesfimipróf Menntamálstofnunar fór fyrst í almenna notkun hafa litlar breytingar orðið á niðurstöðum prófsins á landsvísu og hlutfall nemenda sem útskrifast úr grunnskóla undir lágmarksviðmiði í lesfimi enn um 30%. Þessir nemendur eru ekki ólæsir, eins og gjarnan heyrist í umræðunni, en líklegt að þeir búi ekki yfir nægilegri færni sem nýtist þeim vel á næsta skólastigi þar sem t.d. yfirferð á lesefni eykst og texti þyngist. Góð lesfimi er ein af forsendum góðs lesskilnings og því mikilvægt að nemendur nái tökum á henni.

Lesfimiprófið er hitamælir

Umræðan um lesfimiprófið hefur verið býsna heit á köflum. Þar ruglar fólk jafnan saman mælitækinu sjálfu og viðmiðunum. Líta má á lesfimiprófið sem mælitæki eins og hitamæli sem veitir hlutlausar upplýsingar um stöðuna út frá alþjóðlega viðurkenndri aðferð um það hvernig meta á lestrarfærni þar sem niðurstöður eru gefnar upp í lesnum orðum á mínútu. Viðmiðin, sem eru gefin út fyrir hvern árgang, eiga svo að gefa til kynna æskilega stígandi í lestrarfærni nemenda eftir því sem lestrarnámi hans vindur fram. Þessu tvennu má ekki rugla saman, það er að segja aðferðinni við mat á lestrarfærninni (hitamælinum) og viðmiðunum sem mynda túlkunarramma á frammistöðu.

Lesfimiviðmiðin

Á þeim árum sem lesfimiprófið hefur verið í notkun hefur þess misskilnings jafnan gætt í umræðunni að markmiðið hljóti að vera það að lesa sem hraðast og má rekja þann misskilning að hluta til framsetningar á viðmiðunum sem brýnt er færa til betri vegar í ljósi þeirra gagna sem safnast hafa á undanförnum árum. Í Handbók um notkun lesfimi- og stuðningsprófa Lesferils, sem finna má á heimasíðu Menntamálastofnunar, er að finna allar upplýsingar um æskilega túlkun á niðurstöðum prófsins og eru kennarar og foreldrar hvattir til að kynna sér þær vel.

Notkun stuðningsprófa við mat á lestri

Ef nemandi nær ekki lágmarksviðmiði á lesfimiprófi er eðlilegt að kennari grípi til svokallaðra stuðningsprófa sem veita vísbendingar varðandi það hver ástæðan kann að vera fyrir slöku gengi nemanda á lesfimiprófinu. Annað stuðningsprófið, orðleysulestur, hjálpar kennara að leggja mat á færni nemandans í beitingu hljóðaaðferðar á meðan hitt stuðningsprófið, sem metur sjónrænan orðaforða, hjálpar kennara að leggja mat á forsendur nemenda til að ná tökum á lesfimi. Með því að leggja stuðningsprófin fyrir og nýta sér aðrar upplýsingar sem fást úr vinnu með nemendum geta kennarar hratt og örugglega fundið þá sem glíma mögulega við vanda í lestri á fyrstu stigum lestrarnáms og veitt snemmbæran stuðning. Jafnframt geta skólar nýtt sér niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófa markvisst til að kortleggja heildarstöðu á nemendahópnum og fengið þannig góðar upplýsingar um stöðu og fjölda nemenda sem þurfa stuðning í lestri til lengri eða skemmri tíma. Þetta hjálpar skólum að forgangsraða við ráðstöfun á tíma stoðþjónustu og eykur líkur á að þeir nemendur, sem þurfa á aðstoð að halda, fái hana þar sem skýrar upplýsingar um stöðu þeirra liggja fyrir.

Lítil notkun á stuðningsprófunum

Notkunartölur á stuðningsprófunum benda hins vegar til þess að þau séu ekki nægilega markvisst notuð í skólastarfi en eins og áður segist fást með notkun þeirra dýrmætar upplýsingar og svör um það hvers vegna nemanda gengur mögulega illa á lesfimiprófi og þá í lestri. Menntamálastofnun vill því hvetja skóla til að gera notkun stuðningsprófanna að sjálfsögðum hluta við gagnaöflun um stöðu nemenda í lestri svo hægt sé að veita nauðsynlegan stuðning sem fyrst. Það er liður í því að tryggja að ekkert barn þurfi að sitja eftir með slaka lestrarfærni sem hefur áhrif á annað nám og líðan.

Höfundur er læsisráðgjafi hjá MMS.




Skoðun

Sjá meira


×