Það var í síðustu viku sem að nágrannar hrossaræktenda í Borgarfirði lýstu yfir áhyggjum sínum af illri meðferð dýra á staðnum. Ræktendurnir voru sakaðir um að vanrækslu og sagt að dýrin væru vannærð og geymd í langan tíma í of litlum húsum. Þá var Matvælastofnun harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki brugðist fyrr við tilkynningum og athugasemdum Borgfirðinga vegna vanrækslu hrossanna..Ríkisendurskoðun ákvað í framhaldinu að hefja frumkvæðisúttekt á eftirliti stofnunarinnar með velferð dýra.
Matvælastofnun sendi í morgun frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem að segir ákvarðanir í dýravelferðarmálum geti verið mjög íþyngjandi og því sé nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar í slíkum málum. Brugðist sé við öllum ábendingum um illa meðferð dýra en oftast sé ekki þörf á þvingunaraðgerðum enda bregðist umráðamenn oftast við og bæti úr.
Matvælastofnun áður haft afskipti af bóndanum
Bóndinn á umræddu hrossabúi hefur áður verið sakaður um brot gegn dýrum. Árið 2012 upplýstu þrír fyrrverandi vinnumenn á bænum Matvælastofnun um að gripir á bænum hefðu sætt harðýðgi af hálfu bóndans.
Ári síðar gaf lögreglustjórinn í Borgarnesi út ákæru á hendur honum. Þar var hann meðal annars ákærður fyrir brot gegn lögum um dýravernd og reglugerð um aðbúnað nautgripa. Þá kemur fram í dómunum að við eftirlit starfsmanna Matvælastofnunar hafi komið í ljós að sjö kýr höfðu misst hluta eða megnið af halanum og um eða yfir tuttugu voru með halabrot eða halaslit. Þá var rör, sem notað var til að hindra kýr i að skíta upp í básana, laust og hvíldi á herðum kúa svo komið var far eftir rörið. Ákærði var grunaður um að hafa valdið ofangreindum halamissi, halabroti og halasliti með því að binda hala kúnna upp.
Héraðsdómur Vesturlands sýknaði bóndann. Það var meðal annars gert þar sem hann neitaði sök og sagði móður sína hafa verið umráðamann dýranna á þeim tíma sem brotin áttu sér stað. Sjálf sagði móðirin að hún hefði sagt fyrir verkum í fjósinu þegar meint brot áttu sér stað og haft eftirlit með bústörfum. Það þótti því ekki sýnt fram á að hann hefði verið umráðamaður nautgripanna. Hann hefði því ekki borið ábyrgð vegna málsins.