Í kærunni segir að annar sjúklingur á deildinni hafi ráðist tvívegis á Hrafn með stuttu millibili og meðal annars veitt honum áverka á höfði. Hann hafi þá rotast og orðið fyrir miklu áfalli í tengslum við þennan atburð.
Hrafn fer fram á að lögregla rannsaki málið en óskar þess sérstaklega að rannsókninni verði ekki beint að þeim sem réðst að honum enda sé hann ósakhæfur.
Vonar að stjórnendur spítalans verði næst boðaðir til yfirheyrslu
Einnig fer Hrafn fram á að rannsókninni verði ekki beint að þeim almennu starfsmönnum deildarinnar sem voru að störfum þegar atvikin áttu sér stað þar sem hann telji aðbúnað, öryggi og mönnun hafa verið ófullnægjandi á deildinni. Að mati Hrafns bera stjórnendur ábyrgð á því og almennum starfsmönnum ekki kennt um.
Hrafn staðfestir í samtali við fréttastofu að hann hafi nýlega veitt lögreglu skýrslu vegna málsins.
„Þannig að ég ætlast til þess að lögreglan sé að rannsaka þetta mál af einurð og festu, það má engan tíma missa. Ég vænti þess að heyra í þeim aftur fljótlega og ég vona að næst verði stjórnendur Landspítalans yfirheyrðir.“
Skilur ekki hvers vegna ekki var komið í veg fyrir seinni árásina
Í kærunni kemur fram að Hrafn hafi á þessum tíma sætt nauðungarvistun á grundvelli lögræðislaga og hafi talið mikilvægt að stjórnendur spítalans tækju allar viðhlítandi ráðstafanir til að tryggja öryggi hans.
Það hafi verið brýnt því aðrir sjúklingar sem hann hafi verið vistaður með hafi einnig sætt nauðungarvistun og sumir hverjir væntanlega á þeirri forsendu að þeir kynnu að reynast öðrum mönnum hættulegir.
„Þetta hafi stjórnendum spítalans verið kunnugt en samt hafi þeir með öllu vanrækt að setja viðhlítandi öryggisreglur um starfsemi deildarinnar og/eða tryggt að þeim væri fylgt eftir með nægjanlegum fjölda öryggisvarða og skipulögðum vinnubrögðum,“ segir í kærunni til lögreglu.
Ekki síst hafi þetta átt við eftir fyrri árásina og þykir Hrafni óskiljanlegt að ekki hafi tekist að afstýra þeirri seinni. Telur hann meinta vanrækslu stjórnenda spítalans í þessum efnum kunna að vera stórfellda og refsiverða.
Fjallað var um það í gær að Hrafn hafi höfðað tvö mál gegn íslenska ríkinu vegna frelsissviptingar og læknamistaka og nemur heildarkrafa hans tæplega 124 milljónum króna.