Juventus og Roma gerðu 1-1 jafntefli í stórleik helgarinnar í ítölsku úrvalsdeildinni í dag.
Juventus fékk draumabyrjun á heimavelli en Dusan Vlahovic skoraði strax á annari mínútu með marki beint úr aukaspyrnu.
Manuel Locatelli tókst svo að tvöfalda forskot Juventus á 25. mínútu en myndbandsdómari dæmdi markið af eftir að boltinn fór í höndina á leikmanni Juventus í aðdraganda marksins.
Tammy Abraham jafnaði leikinn fyrir Roma á 69. mínútu þegar skot hans af stuttu færi fór í netið eftir flottan undirbúning frá samherja sínum Paulo Dybala, fyrrum leikmanni Juventus.
Jafnteflið skilar Roma upp í þriðja sæti deildarinnar með sjö stig, jafn mörg stig og toppliðin tvö, Lazio og Torino. Juventus er hins vegar í 6. sæti með fimm stig.