„Ég er mjög þreyttur eftir þennan, þeir voru mjög aggresívir í öllum sínum aðgerðum og nýttu sér það vel hversu líkamlega sterkir þeir eru með. Við vorum með allt of marga tapaða bolta í þessum leik og það er of mikið að fá hátt í 40 stig á eftir eftir að hafa sett boltann í hendurnar á þeim," sagði Elvar Már í samtali við RÚV eftir leikinn.
„Þeir eru búnir að vera að æfa í mánuð og spila æfingaleiki á þeim tíma á meðan við komum hingað fyrir þremur dögum síðan eftir erfið ferðalög. Það sást vel hversu gríðarlega vel undirbúnir þeir voru á meðan við vorum svolítið þungir á löppunum, sérstaklega fyrstu mínuturnar," sagði bakvörðurinn einnig.
„Þetta var hins vegar fínn leikur bara til þess að koma okkur í takt fyrir leikinn við Úkraínu sem við horfum á sem lykilleik fyrir framhaldið. Við viljum vernda heimavöllinn okkar hlökkum til að spila í troðfullum Ólafssal," sagði hann um næsta verkefni íslenska liðsins en Ísland á eftir að leika við Spán aftur og svo tvo leiki við Úkraínu og Georgíu í seinni stigi undankeppninnar.