Mikil ringulreið skapaðist í verslunarmiðstöðinni á fjórða tímanum síðdegis í gær þegar byssuskot heyrðust inni í miðstöðinni. Árásarmanninum, sem er sagður aðeins fimmtán ára gamall, tókst að skjóta tvo en 31 árs karlmaður sem varð fyrir skoti lést í gærkvöldi.
Sá sem var handtekinn í árásinni er sagður frá Gautaborg og áður óþekktur af lögreglunni. Að sögn lögreglu bendir allt til að hann hafi verið einn að verki.

„Allt bendir til að karlmaðurinn hafi verið skotmark árásarmannsins. Því miður virðist konan aðeins hafa villst þarna fram hjá og var í kjölfarið skotin,“ sagði Petra Stenkula lögreglustjóri í Malmö í yfirlýsingu í morgun og ríkisútvarp Svíþjóðar greinir frá.
Að sögn Stenkula er ástandið í Malmö mjög viðkvæmt og ofbeldisglæpum hafi fjölgað þar að undanförnu. Margir hafi misst ástvini sína vegna ofbeldisglæpa undanfarið og borgarbúar finni vel fyrir þessari breytingu.
„Við þurfum að ráðast í langtímavinnu til að vinna bug á þessari ofbeldismenningu sem hefur skapast meðal ungmenna,“ sagði Stenkula.
Lögreglan hefur hvatt vitni til þess að hafa samband til að fara yfir atburðarrásina og hjálpa rannsókn lögreglu þannig. Þá hefur lögreglan tilkynnt að miðstöð verði sett upp til að veita fólki áfallahjálp eftir atvikið.