Öryggisverðir stöðvuðu hann þegar hann reyndi að komast inn í kastalann. Það var eftir að hann sást á lóð kastalans, á svæði þar sem hann er sagður hafa haft aðgang að híbýlum konungsfjölskyldunnar. Elísabet var þá stödd í kastalanum. Með henni var Karl Bretaprins og aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar.
Öryggisvörður sem sá hann, spurði hvort hann gæti aðstoðað hann og þá mun Chail hafa svarað:
„Ég er mættur til að drepa drottninguna.“
Við það dró öryggisvörðurinn upp rafmagnsbyssu og skipaði Chail að leggjast í jörðinni, sem hann gerði.
Við húsleit fundust munir heima hjá honum sem sýndu að hann hafði áður sótt um vinnu hjá varnarmálaráðuneytinu og hernum, með því markmiði að komast nálægt konungsfjölskyldunni.

Reyndi áður að komast nær konungsfjölskyldunni
Chail er sakaður um að hafa ætlað sér að myrða meðlimi bresku konungsfjölskyldunnar og er sagður hafa varið mánuðum í að skipuleggja morðið. Áður en hann lagði af stað þennan dag tók Chail upp myndband þar sem hann sagðist leiður yfir því sem hann þyrfti að gera en hann ætlaði sér að ráða drottninguna af dögum, samkvæmt frétt Reuters.
Chail sagði það vera hefnd fyrir atvik frá 1919 þegar breskir hermenn skutu nærri því 400 síka til bana í norðanverðu Indlandi. Fólkið var óvopnað og var að mótmæla yfirráðum Breta yfir Indlandi. Indverjar hafa lengi krafist afsökunar frá Bretum vegna fjöldamorðsins.
Hann sagðist einnig ætla að hefna allra þeirra síka sem hefðu orðið fyrir mismunun eða ofbeldi vegna kynþáttar þeirra.
Frá því hann var handtekinn hefur Chail verið vistaður á geðheilbrigðisstofnun en en réttarhöldin gegn honum hófust í dag. Hann ræddi við dómara í gegnum fjarfundarbúnað en tók ekki afstöðu til sakarefnisins. Ekki liggur fyrir hvenær aðalmeðferðin mun hefjast.