Yfirvöld segja að Bassam al-Sheikh Hussein, 42 ára sendibílstjóri, hafi farið inn í bankann vopnaður haglabyssu og með bensínbrúsa. Hann hafi skotið þremur varúðarskotum út í loftið áður en hann læsti sig inn í hvelfingu bankans með tíu gíslum.
Þar hótaði hann að kveikja í sér ef hann fengi ekki að taka út pening af læstum bankareikningi sínum sem hann ætlaði að nota til að greiða sjúkrareikninga föður síns.

Eftir margra klukkustunda samningaviðræður við bankann samþykkti Hussein tilboð frá bankanum sem fólst í því að hann fengi að taka út hluta af sparifé sínu ef hann sleppti gíslunum frjálsum.
Gíslarnir fengu frelsi sitt og lögreglan handtók Hussein um leið og hann gekk út úr bankanum. Þá sakaði engan við gíslatökuna.
Hins vegar fékk Hussein ekki peningana sem hann samdi um við bankann, að sögn lögmanns hans.
Sparifé fólks fast inni í bönkum Líbanon
Gíslatakan er nýjasti kaflinn í áframhaldandi efnahagskreppu Líbanon sem hefur staðið yfir undanfarin þrjú ár og rýrt gildi gjaldmiðils landsins um 90 prósent.
Vegna þessa hafa févana bankar landsins sett ströng takmörk á úttektir fólks á reiðufé sem hefur valdið því að sparifé milljóna manna situr fast.

Tugir mótmælenda söfnuðust saman fyrir bankann til að kyrja slagorð gegn bönkum landsins og líbönsku ríkisstjórninni í von um að Hussein fengi að taka út sparifé sitt.
Það sem er líka merkilegt er að gíslatakan er ekki einsdæmi í Líbanon. Í janúar tók kaffihúsaeigandi líbanskan banka í gíslingu sem varð til þess að hann gat tekið út 50 þúsund dollara.