Innlent

For­eldrar hlýddu for­setanum og höguðu sér vel að mestu

Árni Sæberg skrifar
Forsetinn ásamt kátum krökkum á Símamótinu í Kópavogi í dag.
Forsetinn ásamt kátum krökkum á Símamótinu í Kópavogi í dag. Facebook/Guðni Th. Jóhannesson

Forseti Íslands var á Símamótinu í Kópavogi í dag og hvatti áfram ungar knattspyrnustelpur. Hann segir mikilvægt að leyfa börnum að leika og leika sér á knattspyrnumótum. Enginn komist í landsliðið vegna æstra foreldra á hliðarlínunni. Mótinu lauk í dag og að sögn eins skipuleggjenda þess virðast foreldrar hafa hlýtt forsetanum.

„Landsliðsstelpurnar okkar eru ekki eins góðar og þær eru af því að foreldri þeirra voru svo dugleg á hliðarlínunni við að skipa þeim að gefa fyrir eða tækla börn í hinu liðinu, og ekki heldur vegna þess að foreldrin kölluðu „leiðbeiningar“ að kornungum dómurum eða af því að þjálfarar töldu allra mikilvægast að vinna leiki með öllum tiltækum ráðum,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forseti, í færslu á Facebook í morgun.

Nokkuð hefur borið á því á knattspyrnumótum barna að foreldrar keppenda hafi látið kappið bera fegurðina ofurliði. Að sögn Jóhanns Þórs Jóhannssonar, formanns barna- og unglingaráðs hjá Breiðabliki, hefur það ekki valdið miklum vandræðum um helgina.

„Foreldrar hafa hegðað sér nokkuð vel á þessu móti. Það eru einhverjar uppákomur, ekki margar. Við höfum tæklað það með samtölum við þjálfara viðkomandi félaga. Heilt yfir hefur þetta ekki verið vandamál, það eru engin leiðindi og ef upp hafa komið einhver atriði, hefur verið leyst úr þeim í sátt og samlyndi,“ segir hann í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×