Innlent

Mega selja áfengi á framleiðslustað um mánaðamótin

Kjartan Kjartansson skrifar
Minni framleiðendum verður leyft að selja áfrengi á framleiðslustað samkvæmt lögunum sem voru samþykkt í kvöld.
Minni framleiðendum verður leyft að selja áfrengi á framleiðslustað samkvæmt lögunum sem voru samþykkt í kvöld. Vísir/Getty

Frumvarp um að heimila sölu á áfengi á framleiðslustað var samþykkt sem lög á Alþingi nú í kvöld. Lögin taka gildi um mánaðamótin.

Lögin heimila handhafa framleiðsluleyfis sem framleiðir innan við hálfa milljón lítra af áfengi á almanaksári að selja það á framleiðslustað. Frumvarp þess efnis var samþykkt samhljóða af þeim 54 þingmönnum sem voru viðstaddir atkvæðagreiðsluna.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, fagnaði samstöðu í þinginu um breytingarnar.

„Það gefur auðvitað væntingar til þess að það sé orðið ljóst að það er tímabært að endurskoða þá löggjöf sem við búum við í þessum málum. Hún stenst enga tímans tönn og þær breytingar sem hafa orðið í okkar samfélagi og í kringum okkur gera kröfur til þingsins um að axla þá ábyrgð að innleiða breytingar í takt við nýja tíma,“ sagði ráðherrann.

Upphaflega áttu lögin að taka gildi 1. janúar á næsta ári en þingmenn samþykktu breytingatillögu Bryndís Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að þau tækju gildi strax 1. júlí.

Í greinargerð með tillögunni sagði Bryndís að mikilvægt væri að lögin tækju gildi fyrr svo að unnt yrði að bjóða upp á sölu á framleiðslustað á háannatíma ferðaþjónustunnar í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×