Könnunin fór fram dagana 1. til 7. júní en meirihlutinn var tilkynntur í gær, í miðri mælingu. Því snérist könnunin um fyrirhugað meirihlutasamstarf.
Samkvæmt könnuninni eru 37 prósent íbúa ánægðir með samstarfið, 23,4 prósent í meðallagi ánægðir, en 39,6 prósent líst illa á samstarfið. Aðeins 56,7 prósent kjósenda flokkanna fjögurra eru ánægðir með samstarfið.
47 prósent íbúa í miðborginni og Vesturbænum líst vel á samstarfið, 41 prósent íbúa Hlíða, Laugardals, Háaleitis og Bústaða, og einungis 28 prósent þeirra sem búa austan Elliðaáa.

Konur eru líklegri til að styðja samstarfið en 42,4 prósent kvenna segjast vera ánægðar samstarfið. Einungis 31,7 prósent karla líst mjög vel eða frekar vel á samstarfið.
Aldurshópnum 18-39 ára líst best á samstarfið en 43,5 prósent þeirra líst mjög vel eða frekar vel á samstarfið. Einungis 29,3 prósent borgarbúa yfir sextugt líst vel á samstarfið en 46,7 prósent sama aldurshóps líst frekar illa eða mjög illa á samstarfið.
Einungis 26 prósent þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum líst mjög vel eða frekar vel á samstarfið.
Alls vildu 52,8 prósent kjósenda fá Einar Þorsteinsson sem borgarstjóra, 23,8 prósent Dag B. Eggertsson, 17,6 prósent Dóru Björt Guðjónsdóttur og 5,8 prósent Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur.