Valur ætti vissulega leik til góða ásamt því að vera með mun betri markatölu en þegar rúmlega þriðjungur mótsins er búinn er staðan í deildinni að vissu leyti nokkuð óvænt.
Allar spár fyrir mót bentu til þess að við myndum fá endurtekningu á undanförnum árum. Það er að Íslandsmeistarar Vals og bikarmeistarar Breiðabliks myndu berjast um titilinn.
Óvænt úrslit í Lengjubikarnum gerðu það að verkum að allt í einu var talið að Stjarnan gæti átt möguleika þar sem Valur og Breiðablik virtust ekki jafn ógnarsterk og undanfarin ár.
Valur er vissulega á toppi deildarinnar eftir sjö umferðir en liðið er aðeins tveimur stigum á undan Selfossi sem er í öðru sæti og þremur á undan bæði Stjörnunni og Þrótti Reykjavík. Það sem stingur í er að Breiðablik situr í 5. sæti deildarinnar með aðeins 12 stig þrátt fyrir að vera með næstbestu sókn deildarinnar sem og næstbestu vörnina.

Breiðablik hefur unnið fjóra stórsigra það sem af er sumri en tapað þremur leikjum, öllum 1-0. Annað hvort skorar liðið þrjú til fjögur mörk í leik eða það nær ekki að þenja netmöskvana.
Stjarnan getur með sigri í dag jafnað Val tímabundið að stigum en Íslandsmeistararnir fá botnlið Aftureldingar í heimsókn annað kvöld. Það sem meira er, á morgun mætast Breiðablik og Selfoss á Kópavogsvelli.
Með sigri gætu bikarmeistarar Blikar stokkið upp fyrir Selfyssinga í töflunni en ljóst er að 8. umferð Bestu deildar kvenna gæti skorið úr um hvaða lið ætla sér að vera í toppbaráttunni og hvaða lið ætla að vera í hvorugri baráttunni, á toppi né botni.
Leikur Stjörnunnar og Þórs/KA er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Hefst leikurinn klukkan 14.00 en útsending klukkan 13.50.