Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Framsóknar og Pírata hafa undanfarna tólf daga verið við meirihlutaviðræður og lítið viljað tjá sig um framgang þeirra, annað en það að vel gangi og einblínt hafi verið á málefnin fyrst um sinn.

Nú virðist niðurstaða komin í viðræðunum og málefnasamningur við það að verða tilbúinn, ef hann er það ekki þegar. Dagur B. Eggertsson mun kynna málefnasamninginn fyrir flokksmönnum sínum annað kvöld klukkan 20:30 á fundi í Sóltúni í Reykjavík. Viðreisn í Reykjavík hefur sömuleiðis boðað til fundar annað kvöld til að kynna meirihlutasáttmálann.
„Tilefni fundarins er umræða og afgreiðsla um tillögu oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík um væntanlegt meirihlutasamstarf í Borgarstjórn Reykjavíkur,“ segir í póstinum sem sendur var á flokksmenn fyrir tæpum klukkutíma síðan.
„Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík fer yfir niðurstöðu viðræðna og kynnir málefnasamning sem lagður verður starfinu til grundvallar.“
Dagur sagði í viðtali við mbl.is fyrr í kvöld að stefnan sé sett á að tilkynna nýja borgarstjórn á þriðjudaginn. Vel hafi gengið að funda um helgina en fundir muni halda áfram fram á kvöld og á morgun. Fréttastofa hefur ekki náð í Dag við vinnslu þessarar fréttar.
Fréttin var uppfærð klukkan 22:10 með upplýsingum um að Viðreisn hafi sömuleiðis boðað til fundar.