Skoðun

Kjós­endur völdu nætur­strætó

Sindri Freyr Ásgeirsson skrifar

Nú standa yfir meirihlutaviðræður hjá borgarstjórnarflokkum Framsóknar, Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar, og má ætla að þau séu þar að ræða sameiginlega snertifleti á málefnum. Fyrir sveitastjórnarkosningarnar 14. maí var augljóst að flestir þeirra flokka sem nú eiga í meirihlutaviðræðum í Reykjavíkurborg sammála um ágæti næturstrætó

Afdráttarlausust voru Framsókn og Píratar en í stefnuskrá Framsóknar stendur „Framsókn vill endurvekja næturstrætó”[1] og hjá Pírötum stendur „komum aftur á næturstrætó”[2] . Voru það þessir tveir flokkar sem bættu við sig fylgi í kosningunum og ekki ólíklegt að þessi skýra afstaða gagnvart endurkomu næturstrætó sé hluti af því hvers vegna kjósendur greiddu þeim atkvæði sitt. Í kosningaáherslum Samfylkingarinnar segir að “sett verði aukið fjármagn í rekstur Strætó strax [...] einnig verði skoðað að auka tíðni á völdum leiðum utan háannatíma og/eða lengja aksturstímabil, meðal annars um helgar með næturstrætó”[3] . Að lokum talar Viðreisn um að „Reykjavík setji sér stefnu um næturhagkerfið”[4] en hluti af þörfum næturhagkerfisins eru öruggar samgöngur. 

Flokkarnir virðast því vera sammála um mikilvægi þess að endurvekja næturstrætó, enda er þessi þjónusta gríðarlega mikilvæg í fjárhagslegu-, umhverfislegu-, og jafnréttislegu tilliti. 

Næturstrætó er fjárhagsmál

Kostnaður við að taka leigubíl er hár eins og bent var á í grein [5] um næturstrætó fyrr í vetur og eftir afléttingu samkomutakmarkana hefur einnig orðið vart við leigubílaskort. Því er næturstrætó mikilvæg þjónusta fyrir stúdenta og annað efnaminna fólk þannig að drjúgur hluti ráðstöfunartekna fólks fari ekki í leigubíl, en vitað er að framfærsla stúdenta er of lág og því nýta stúdentar og yngra fólk sér þjónustu strætó í auknum mæli.[6] Stúdentaráð Háskóla Íslands lagðist gegn áformum Strætó bs. að hætta rekstur næturstrætó m.a. af þessum ástæðum í ályktun sem ráðið sendi frá sér í ágúst 2021.[7]

Næturstrætó er loftslagsmál 

Í umhverfisstefnu strætó stendur „Að upplýsa almenning um ávinning almenningssamgangna og stuðla þannig að aukinni notkun þeirra”[8]. Ljóst er að umhverfisvitund landsmanna er að aukast og mikilvægt er að auka hlutdeild vistvænna samgangna, á daginn sem og á nóttunni. Almenningur vill nýta sér þessa þjónustu og hún þarf að vera í boði fyrir þann hóp. Stór hópur ungs fólks vinnur vaktavinnu eða á óhefðbundnum tímum og því mikilvægt að gera þeim kleift að nýta sér vistvæna og örugga ferðamáta en í dag þarf þetta fólk að nýta sér bílinn ef þau búa út fyrir þjónustusvæði rafhlaupahjólanna. Þjónustan hafði ekki fengið nægilega reynslu þegar hún var lögð niður vegna COVID-19 og mikilvægt að gefa henni annað tækifæri. 

Næturstrætó er öryggismál

Öryggi fólks er takmarkað á nóttunni og núverandi staða í samgöngumálum tengdum næturlífinu eykur á þetta öryggisleysi þar sem einungis dýrir og sjaldséðir leigubílar standa fólki til boða. Því er mikilvægt að aðgengi sé að áreiðanlegum almenningssamgöngum á næturnar, sérstaklega fyrir þann hóp fólks sem er meira berskjaldaður fyrir ofbeldi, til dæmis konur og aðrir minnihlutahópar. Þar sem næturstrætó væri hluti af almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins væri líklega fleira fólk með í hverri ferð, aukinn fjöldi veitir öryggi. Að ganga heim úr miðborginni er ekki ákjósanlegt fyrir alla. Síðustu ár hafa rafskútur skapað sér stöðu sem einn algengasti ferðamáti fólks, sérstaklega miðsvæðis í Reykjavík. Rafskútur eru ódýr og umhverfisvæn samgöngutæki og því tilvalinn kostur. Mörg nota rafskútur til að ferðast til og frá skemmtanalífinu og skiptar skoðanir eru á ágætum þess, ljóst er að áfengisneysla og rafskútunotkun fara ekki saman. Til þess að draga úr rafskútunotkun tengdri næturlífinu er nauðsynlegt að bjóða upp á annan umhverfisvænan, ódýran og öruggan ferðamáta. 

Mikilvægt er að þeir flokkar sem nú eru í meirihlutaviðræðum málamiðli ekki við sjálf sig heldur taki höndum saman, standi við loforðin og setji þetta mikilvæga málefni í forgang í meirihlutasáttmálanum - enda er ljóst að þau eru öll sammála um mikilvægi þjónustu næturstrætó. Kosningar eru til þess að fólkið fái að velja og kjósendur völdu næturstrætó! 

Undir þetta bréf skrifa: 

  • Egill Ö. Hermannsson - varaforseti Ungra umhverfissinna 
  • Glódís Guðgeirsdóttir - varaformaður Samtakanna um bíllausan lífsstíl. 
  • Sindri Freyr Ásgeirsson - Forseti Röskvu - samtök félagshyggjufólks við HÍ. 
  • Sólveig Ástudóttir Daðadóttir - Forseti Q - félag hinsegin stúdenta. 
  • Unndís Ýr Unnsteinsdóttir - Forseti Femínistafélags Háskóla Íslands 
  • Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams - stjórnarmaður Samtaka Reykvískra Skemmtistaða

Heimildir:




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×