Mótmælin hófust á fimmta tímanum í dag en fyrr í dag hittust liðsmenn ungliðahreyfingar Íslandsdeildar Amnesty International og stóðu að skiltagerð, sem öllum mótmælendum var frjálst að taka þátt í.
Þaðan lá leið þeirra á Austurvöll, en þar hafði fólk safnast saman með til þess að mótmæla fyrirhuguðum brottvísunum. Í hópi mótmælenda var flóttafólk sem til stendur að vísa úr landi.
„Við erum frá Sómalíu og þar geisar stríð. Þar ríkir enginn friður. Við komum til Grikklands frá Sómalíu. Lífið í Grikklandi er mjög erfitt. Við sofum á götum úti. Þar er engan mat að fá eða gistirými. Þar er ekki friðsælt og við viljum ekki láta flytja okkur aftur þangað,“ segir Fatima Mohamud.
Þó til standi að vísa fólkinu úr landi, veit það ekki nákvæmlega hvenær sá dagur kemur, þó stjórnvöld segi daginn nálgast.
„Við vitum ekki nákvæmlega hvenær en okkur er sagt að við eigum að vera tilbúin að fara aftur til Grikklands og verða flutt úr landi,” bætir Fatima við.

Vildi sýna fólkinu stuðning
Þá voru fleiri mótmælendur sem lögðu leið sína á Austurvöll til að sýna samstöðu með flóttafólki. Khattabi Al Muohammad er flóttamaður frá Sýrlandi sem hefur verið á Íslandi frá árinu 2016.
Hvers vegna komstu hingað í dag?
„Ég kom til að styðja þetta fólk því við erum á sama báti. Ég hef verið hér í um sjö ár en veit ekki hvenær dómsmálaráðherra segir mér að fara.“
Flóttafólkið sem til stendur að senda til Grikklands óttast að enda þar á götunni.
„Við viljum að ríkisstjórnin hjálpi okkur og veiti okkur tækifæri til að búa hér,“ segir Fatima.