Hunsuð af yfirvöldum
„Við byrjuðum að senda fyrirspurnir árið 2020 um hvaða leyfi séu til staðar, hvað við eigum að gera, hvert eigum við að tilkynna og svo framvegis. Því við vorum margoft búin að reyna að tala við hana, en það gekk bara ekki neitt,“ segir Kristjana Þórarinsdóttir, sálfræðingur og íbúi á Skrauthólum. Hún hefur búið þar ásamt eiginmanni sínum og börnum síðan 2016, nokkrum metrum frá gömlu útihúsunum þar sem er rekin andleg atvinnustarfsemi og ferðaþjónusta. Það ber heitir Sólsetrið og er í eigu Lindu Mjallar Stefánsdóttur. Fjallað var um starfsemi Sólsetursins á Skrauthólum í Kompás og sömuleiðis hafa óvenjulegir viðburðir þar ratað í fjölmiðla undanfarið.
„Þetta er auðvitað bara atvinnustarfsemi,“ segir Guðni Halldórsson, eiginmaður Kristjönu. Guðni starfar sem lögfræðingur og sömuleiðis eru þau hjónin mikið hestafólk. „Að vera með þessa viðburði sem hefur verið fjallað um og þarna flytur fólk sem er á vondum stað í lífinu oft og er að leita að sjálfu sér og svo framvegis og lendir í misjöfnum aðstæðum.“

Hélt að níðstöngin væri líflátshótun
En það var níðstöng sem hafði verið komið fyrir í skjóli nætur við afleggjarann að Skrauthólum, sem fangaði loks athygli fjölmiðla og almennings í landinu. Afskorinn hestshaus á tréstöng, með miða í kjaftinum, beint að Skrauthólum. Kristjana hélt að stönginni hefði verið beint að þeim og það hefði verið nágrannar þeirra á Sólsetrinu sem hefðu drepið einn af hestunum þeirra og hótað þeim með þessum óskemmtilega gjörning.
„Þetta var svo hræðilegt. Ég er sálfræðingur og sérhæfi mig í að vinna með áföll, það er það sem ég geri allan daginn í vinnunni. Þetta er eitt það ógeðslegasta sem ég hef séð,“ segir Kristjana. „Ég hélt að líf okkar væri í hættu.“
Hausinn kom frá traustum bónda
Eftir að málið komst í fjölmiðla og enginn virtist ætla að lýsa yfir ábyrgð á gjörningnum, bárust hjónunum nafnlaus skilaboð frá þriðja aðila, sem vörpuðu skýrara ljósi á málið.
„Ég var beðin um að koma skilaboðum til þín frá ónafngreindum aðila sem vildi fullvissa ykkur fjölskylduna um að níðstöngin beinist ekki að ykkur heldur þeim sem eru á Sólsetrinu og eru að brjóta á ykkur ásamt fullt af öðru fólki að ástæðulausu. Skilaboðin eru líka sú að þeim þykir ótrúlega leiðinlegt, og biðjast afsökunar á, að þið hafið orðið hrædd og tilgangurinn var aldrei að valda ykkur ótta, heldur var þetta til að styðja við ykkar raddir og orð sem lögreglan hlustar ekki á.
Þau sem standa á bak við stöngina vilja líka taka fram að þau fengu hestinn frá traustum og góðum bónda og eru að fylgja heiðnum sið. Þið þurfið ekkert að óttast. Það er fólk sem stendur með ykkur og er líka löngu komið með nóg af Sólsetrinu og því ofbeldi sem fær að þrífast þar og sérsaklega núna þegar það beinist að börnum. Þau tala um að hafa reynt að passa sig svo vel að stöngin mundi hvergi beinast að húsinu ykkar eða sjálst frá því og eru miður sín yfir því að hafa valdið ykkur ótta.“
Kynlíf, nekt og ofskynjunarefni
Guðni undirstrikar að allar þessar uppákomur undanfarinna missera og árekstra við nágrannanna, sé það sem þau hjónin séu ósátt með.
„Kynlíf, nekt, ofskynjunarefni oft notuð. Og maður hefur aldrei sett sig mikið inn í að vita hvað fer þarna fram, en eftir því sem maður veit meira þá lýst manni verr á það og bregður við,“ segir Guðni.

Nakinn maður með stæla við ungling
Þau hafa lent í því undanfarin ár að fólk komi til þeirra og banki upp á á öllum tímum sólarhringsins í leit að Sólsetrinu. Og svo hafa börnin þeirra sömuleiðis lent í óskemmtilegum aðstæðum í samskiptum við nágrannanna. Í fyrrasumar fór eitt af heimilisdýrunum á vapp og unglingssonur Kristjönu fór til nágrannanna að svipast um eftir því.
„Og þá kemur nakinn maður labbandi í áttina að honum. Og honum bregður. Auðvitað. Unglingur í aðstæðum þar sem maður á ekki von á að mæta nöktum karlmanni. Og maðurinn segir við hann: What? I was born this way!“
„Og við erum búin að reyna að gera allt í rauninni og hafa svo mikið fyrir því að reyna einhvern veginn að leita eftir aðstoð, tilkynna allt, reynum allt sem við getum. Og við fáum ekki áheyrn. Sem er bara glatað,“ segir Kristjana. „Ég er með læst á daginn, heima hjá mér.“
Nánar verður rætt við Kristjönu og Guðna eftir kvöldfréttir Stöðvar 2.