Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri yfir móttöku flóttamanna frá Úkraínu segir að straumur flóttafólks til landsins sé að aukast aftur eftir að hann minnkaði um og yfir páskana.
„Það sem af er ári höfum við tekið á móti 1.508 umsækjendum um alþjóðlega vernd, þar af eru 979 frá Úkraínu,“ segir Gylfi og bætir við að 257 börn séu úr hópi Úkraínumanna.
Gylfi segir að húsnæðismál fyrir þennan hóp séu í ágætis málum eins og er en húsnæðisskortur á landinu gæti orðið til vandræða.
„Ég held að Mannvirkjastofnun hafi bent á að það vanti einar þrjú þúsund íbúðir á landið fyrir þetta ár. Nú erum við að bæta við töluverðum fjölda fólks inn í landið og ef þessar tölur halda áfram að vera svona þá má búast við að flóttamenn á þessu ári verið á bilinu þrjú til fjögur þúsund. Hvað það þýðir í íbúafjölda? Það gæti verið 1500 til 2000 íbúðir sem þurfa þar til viðbótar þannig það er ljóst að það er gífurleg húsnæðisþörf að skapast í landinu á þessu ári.“
Gylfi segir að enn sem komið er hafi teymið ekki þurft að leita á náðir fólks varðandi gistingu fyrir flóttafólk, en það gæti þó breyst.
„Og erum að vinna með aðilum, bæði eins og vinnumálastofnun og öðrum um að samtvinna störf og húsnæði meðal annars úti á landi.“