Arnar var spurður fyrst að því hvað hans menn gætu verið ánægðir með úr leiknum í kvöld.
„Fyrri hálfleikur var góður en þetta var alls ekki nægjanlegag heilsteypt frammistaða í 90 mínútur. Á köflum þá náðum við að klára verkefnið með því að gera þrjú góð mörk en ef ég má vera gráðugur þá frammistaðan í heild ekki nægjanlega sterk. Við vorum of sloppy og mér fannst við finna fyrir því að hafa spilað einum leik fleira en flest lið í deildinni og menn voru hálf þungir og þreyttir og voru að spara sig í seinni hálfleik. Það var klaufalegt að fá á sig þetta mark. Fram er vel spilandi lið þegar sá gállinn er á þeim og létu okkur hafa fyrir hlutunum en ég er klárlega sáttur með sigurinn en heilt yfir var frammistaðan ekki nægjanlega góð.“
Eins og Arnar kom inn á þá duttu hans menn niður og var hann spurður að því hvort það væri hægt að gera eitthvað til að koma í veg fyrir það verandi 3-0 yfir og með góð tök á leiknum.
„Nei, maður er kannski bara gráðugur á línunni og vill meira og meira. Stundum gleymir maður sér í hita leiksins og strákarnir eru bara mannlegir og það eru smá þyngsli í mönnum. Við vorum að reyna að hressa liðið við og það er mjög gott að fá Pablo [Punyed] inn í þetta og gefa honum 25 mínútur. Við reyndum að hreyfa við liðinu og gefa mönnum mínútur þannig að menn verða klárir í stórleikinn á mánudaginn. 4-1 sigur á heimavelli er alltaf mjög gott, ekki misskilja mig en heilt yfir hefðum við átt að klára leikinn aðeins betur.“
Þegar Fram minnkaði muninn í 3-1 um miðbik seinni hálfleiks var Arnar klár með fjórfalda skiptingu og var hann spurður út í það hvort einhver vafi hafi komið í hann með að gera skiptinguna.
„Það var, eins og öll hin mörkin sem við höfum fengið á okkur í sumar, ótrúlega klaufalegt mark að fá á okkur. Varnarleikur fyrir mér er bara einbeiting ekki bara frá markmanni eða varnarmönnum heldur frá öllu liðinu. Við höfðum mikið af þessari einbeitingu í fyrra, út af ákveðnum karakterum eins og allir vita hverjir voru og eru. Ef við ætlum að vera í toppbaráttu í sumar þá verðum við að ná þessum fókus aftur að verja markið. Hingað til hefur þetta ekki verið gott varnarlega, í smáatriðunum, en skóknarlega er flæðið í leik liðsins mjög gott.“
Að lokum var Arnar spurður að því afhverju Víkingur fái ekki víti dæmd fyrir sig en Axel Freyr Harðarson hefði klárlega átt að fá víti á 74. mínútu þegar honum var hrint inn í teig. Arnar hló í nokkrar sekúndur áður en hann gat borið upp svar við spurningunni.
„Þetta er tvíeggja sverð að svara þessu. Ég veit það ekki. 4-1 og ég hefði tekið nettan trylling ef staðan hefði verið 0-0. Þeir fá eitt tækifæri í viðbót annars tryllist ég.“