„Það er mikið undir hér á Hlíðarenda í kvöld þegar Valur og Tindastóll mætast í þriðju viðureign liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. Það er uppselt á leikinn og hér verða fimmtán hundruð áhorfendur í húsinu annan leikinn í röð,“ sagði Guðjón Guðmundsson.
Guðjón fékk Hörð Unnsteinsson, yfirþjálfara hjá KR og sérfræðing í Körfuboltakvöldi, til að spá í þriðja leik Vals og Tindastóls í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20.30 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Subway Körfuboltakvölds hefst klukkan 20.00.
„Þetta er í rauninni bara ótrúlegt og ég man ekki eftir að það hafi gerst oft áður að það sé uppselt á úrslitaleiki í körfubolta langt fram í tímann. Þetta er mögnuð stemmning sem hefur myndast hérna í þessari seríu. Við eigum eftir að sjá ótrúlegan leik í kvöld,“ sagði Hörður Unnsteinsson.
„Það er talað um það í NBA körfuboltanum ef þú vinnur leik fimm í sjö leikja seríu þá vinna 83 prósent liðanna seríuna. Ætli það sé ekki svipað í íslenskum körfubolta. Leikur þrjú í 1-1 stöðu og ef þú vinnur hann ertu kominn með ansi góða yfirhönd,“ sagði Hörður.
„Það væri sérstaklega sterkt fyrir Tindastól að fara aftur til baka á Sauðárkrók á sunnudaginn með 2-1 forystu. Það yrði risastórt,“ sagði Hörður.
„Ég held að þetta verði algjör spennuleikur. Tindastólsmenn slógu Valsmenn svolítið á trýnið í síðasta leik og stemmning á Sauðárkrók var engu lagi lík. Ég held að Valsmenn verði svolítið að svara fyrir það í dag. Þeir náðu illa að standast ákefðina í vörninni hjá Tindastól í síðasta leik og það verður að verða einhver mikil hugarfarsbreyting hjá Valsmönnum ef ekki á illa að fara í kvöld,“ sagði Hörður.
Það má heyra allt viðtal Gaupa við Hörð hér fyrir neðan.