Framsóknarflokkurinn er áfram á flugi miðað við síðustu kosningar og fengi 11,3 prósent atkvæða, dalar um prósentustig frá síðustu könnun í byrjun maí en er langt yfir 3,2 prósenta fylgi í síðustu kosningum. Viðreisn mælist nú með 7,5 prósent sem er ekki langt frá fylgi flokksins árið 2018. Sjálfstæðisflokkurinn tapar hins vegar miklu fylgi frá því kosið var síðast, fengi 21,8 prósent nú en var lang stærsti flokkurinn árið 2018 með 30,8 prósent atkvæða.
Flokkur fólksins bætir lítillega við sig bæði frá síðustu könnun og kosningum og mælist nú með 5 prósent. Sósíalistaflokkurinn fengi um prósentustigi meira fylgi en síðast með 7,5 prósent. Miðflokkurinn hefur hins vegar misst ríflega helming fylgis síns frá síðustu kosningum og fengi 3,3 prósent nú samkvæmt könnun Maskínu.
Fylgi Vinstri grænna dalar milli kannanna
Píratar eru aftur á móti í mikilli sókn og fengju 13,3 prósent atkvæða. Nánast tvöfaldar fylgi sitt en flokkurinn fékk 7,7 prósent í síðustu kosningum. Samfylkingin mælist með mesta fylgið og fengi 22,7 prósent atkvæða nú sem er þó rétt rúmlega þremur prósentum minna en í síðustu kosningum.
Vinstri græn fengju sama fylgi og síðast eða 4,6 prósent og hefur dalað um 2,6 prósentustig frá síðustu könnun hinn 2. maí.
E-listi Reykjavíkur bestu borgarinnar fengi 1,5 prósent atkvæða og Y-listi Ábyrgrar framtíðar 1,8 prósent. Hvorugt framboðið næði inn borgarfulltrúa.
Framsókn fengi þrjá fulltrúa
Ef þetta yrðu úrslit borgarstjórnarkosninganna á laugardag fengi Samfylkingin flesta fulltrúa eða sex, einum færri en í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn fengi fimm fulltrúa og tapaði þannig þremur frá síðustu kosningum.
Framsóknarflokkurinn myndi hins vegar fá þrjá fulltrúa kjörna en fékk engan kjörinn síðast.
Píratar myndu bæta við sig einum fulltrúa frá síðustu kosningum og fengju nú þrjá kjörna. Viðreisn heldur sínum tveimur fulltrúum og Flokkur fólksins og Vinstri græn sínum eina fulltrúa hvor flokkur.
Sósíalistaflokkurinn myndi aftur á móti bæta við sig einum og fengi tvo kjörna nú. Miðflokkurinn missir sinn fulltrúa og fengi engan kjörinn nú.
Meirihlutinn héldi með minnsta mun
Samkvæmt þessu héldu flokkarnir fjórir sem mynda meirihlutann í borgarstjórn sínum 12 fulltrúum og gætu þar með endurnýjað samstarf sitt. Minnihluta flokkarnir yrðu samanlagt með ellefu fulltrúa.
Innan þeirra er mesta breytingin sú að þrír fulltrúar færast frá Sjálfstæðisflokki og einn frá Miðflokki og fara til Framsóknarflokks og Sósíalistaflokksins.