Greint hefur verið frá því að fólk hér á landi hafi greinst smitað af undirafbrigði sem greindist fyrst í Suður-Afríku. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði nákvæmar upplýsingar lægju ekki enn fyrir um alvarleika svonefnds BA4 og BA5 afbrigðis en að hann vonaðist til að það væri svipað og það fyrra: bólusettir gætu smitast en þeir fengju vægari einkenni og sýkingin sjálf verndi betur.
Sérstök ástæða hefur verið talin til að fylgjast með þróun undirafbrigðanna vegna eðli stökkbreytinganna í svonefndu broddprótíni þeirra. Þórólfur sagði að vegna þess hefðu sérfræðingar áhyggjur af breytingum á sjúkdómnum eða einkennum.
„Ég held að maður sé ekkert að hafa of miklar áhyggjur á þessu stigi,“ sagði Þórólfur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Það borgaði sig þó að segja sem minnst um alvarleika afbrigðisins að svo stöddu. Veiran hafi oft leikið á hann áður og því væri ástæða til að fylgjast vel með og vera tilbúin að grípa til ráðstafana ef til þyrfti.
Þessa dagana greinist um fimmtíu manns smitaðir af kórónuveirunni á dag en líklega sé fjöldinn hærri. Fáir leggist inn á sjúkrahúss vegna hennar. Fyrir helgi hafi tveir legið inni á Landspítala með Covid-19. Þeir sem hafi fengið veikina þekki þó að hún sé ekki venjuleg pest þó að margir sleppi vel.