Það vakti mikla athygli í gær þegar fréttastofa greindi frá því að Hildur Björnsdóttir, sem leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í borginni fyrir næstu kosningar, hefði ekki mætt á borgarstjórnarfundi síðan um miðjan febrúar.
Var í prófkjörsbaráttu þegar hún hætti að mæta
Í samtali við fréttastofu sagði hún kosningabaráttuna vera ástæðuna. Þessar skýringar koma Alexöndru Briem Pírata og forseta borgarstjórnar á óvart.
„Af því að fyrsta lagi þá var hún ekki búin í prófkjöri fyrr en svona mánuði eftir að þetta tímabil hefst og í öðru lagi þá er hún ekkert í meiri kosningabaráttu en ég eða Dóra eða Dagur eða Pawel eða Kolbrún eða Sanna,“ segir Alexandra og vísar þarna í borgarfulltrúa annarra flokka sem einnig standa í miðri kosningabaráttu.
„Ég ætla samt að segja það til að allrar sanngirni sé gætt að Hildur hefur nú alveg verið að taka sæti í ráðsfundum. Þó ég ætli kannski ekki að tjá mig sérstaklega um þátttöku hennar á fundunum. Enda eru þetta lokaðir fundir,“ segir hún.

Það sé alvarlegt að borgarfulltrúar mæti ekki á fundi.
„Auðvitað getur komið fyrir að fólk mæti ekki út af löglegum forföllum. En ég myndi ekki segja að kosningabarátta sé það nema í mjög öfgakenndu tilfelli og alveg örugglega ekki prófkjörsbarátta,“ segir Alexandra.
Ætlar ekki að leggja mat á mætingu Hildar
Eyþór Arnalds er fráfarandi oddviti Sjálfstæðisflokksins. Hann kveðst kveðja kjörtímabilið sáttur og ætlar að snúa sér aftur að viðskiptum og tónlist. Hann sat síðasta borgarstjórnarfund kjörtímabilsins í gær, sem samflokkskona hans Hildur mætti ekki á.

En hvað finnst honum um fréttir af mætingu hennar og gagnrýni annarra á hana?
„Ég held það verði hver og einn að líta í eigin barm. Það ber hver og einn borgarfulltrúi ábyrgð á sinni mætingu og það geta verið lögmæt forföll fyrir því að fólk komist ekki á fundi og það er allur gangur á því hvernig menn hafa verið að mæta. Þannig að ég held að menn eigi ekkert að vera að kasta steinum úr glerhúsi heldur bara að horfa fyrst á fremst á hvernig þeir sjálfir hafa verið að standa sig,“ segir Eyþór.
Spurður hvort það sé rétt sem Hildur segi að það sé rík hefð fyrir því hjá Sjálfstæðismönnum að sá sem leiði lista fyrir kosningar taki sér hlé frá störum og kalli inn varamann segir Eyþór:
„Það er mætingarskylda nema lögmæt forföll séu og menn melda sig þá inn og fá varamann. En auðvitað eiga menn að mæta sem best. Þarna er ákveðið tímabil þar sem mætingin hefur kannski verið öðruvísi heldur en fyrr á kjörtímabilinu og þannig er það bara.“

Spurður hvort honum þætti kosningabarátta flokkast undir lögmæt forföll sagði hann:
„Nú er hver og einn sem að þarf að tilkynna forföll og kalla inn varamann þannig ég ætla ekki að meta einstök tilfelli. Það er hver og einn sem ber ábyrgð á sinni mætingu.“
Var í svipaðri stöðu fyrir kosningar
Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið afar illa út úr skoðanakönnunum síðustu daga þar sem hann mælist í 21 prósenti sem væri mesti ósigur hans í borginni frá upphafi.
Sjálfur mældist listi Eyþórs um sex prósentustigum lægri á sama tíma fyrir kosningar en hann endaði í sjálfri kosningunni þegar Sjálfstæðisflokkurinn kom út sem stærsti flokkur í borginni með tæp 31 prósent.
Hildur hefur sjálf kennt bankasölumáli ríkisstjórnarinnar um lélegt gengi flokksins í kosningabaráttu í borginni.
Eyþór er ekki endilega sammála því:
„Ég held að sá samkvæmisleikur að finna blóraböggla gagnist mjög lítið í kosningabaráttunni. Ég held það sé miklu betra að horfa á hvaða valkostir eru - hvort að menn vilji áfram hafa þennan borgarstjórnarmeirihluta eða breytingar. Og ég hef alltaf litið á Sjálfstæðisflokkinn í borginni sem lykil að því að breyta í borginni og ég vona að kjósendur geri það líka,“ segir hann.
En telur hann að Hildur geti rifið fylgið aftur upp á einni og hálfri viku?
„Hildur er ekki ein. Þetta er náttúrulega öflugur hópur og ef allir leggjast á árarnar og styðja framboðið þá er hægt að gera ótrúlega margt.“