Píratar segja framkomu lögreglu gagnvart börnum í minnihlutahópum vera alvarlega og að lögregla verði að svara fyrir verklag sitt í tengslum við leitina að Gabríel Douane Boama sem slapp úr haldi lögreglu frá Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Því hafi Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður flokksins, farið fram á að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og lögreglan mæti á opinn fund allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Framkoma lögreglu gagnvart börnum í minnihlutahópum vegna útlits er alvarleg og nauðsynlegt að hún svari fyrir verklag sitt. Því hefur @arndisg farið fram á að dómsmálaráðherra og lögreglan mæti á opinn fund allsherjar- og menntamálanefndar. https://t.co/NJ49zvQDD7
— Píratar (@PiratarXP) April 21, 2022
Lögregla hefur nú í tvígang haft afskipti af sextán ára dreng í tengslum við leitina að Gabríel, að því er virðist aðeins vegna þess að hann er þeldökkur líkt og Gabríel.
Í gær var greint frá því að sérsveit ríkislögreglustjóra hafi haft afskipti af drengnum í strætisvagni. Margir, þar á meðal þingmenn og landsfrægur tónlistarmaður, hafa velt því upp að atvikið, sem og athugasemdir netverja um málið, byggi á kynþáttafordómum.
Það var svo í morgun þegar drengurinn var staddur í bakaríi í Mjódd ásamt móður sinni þegar lögreglumenn renndu í hlað og höfðu afskipti af þeim. Móðir hans segir að karlmaður á Teslu-bifreið hafi hringt á lögreglu þegar hann sá son hennar.
Kristján Helgi Þráinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að staðan á málinu sé í raun óbreytt frá því í gær. Ekki sé búið að finna Gabríel en lögregla elti vísbendingar sem berist. Þar sé einkum um að ræða borgara sem hringi og telji sig hafa séð hann. Tilkynningar séu fjölmargar, þar af allt að fimmtán í morgun.