Skoðun

Saman erum við ó­stöðvandi

Hilda Jana Gísladóttir skrifar

Eitt af því sem ég er hvað stoltust af á kjörtímabilinu er að hafa fengið að leiða starf landshlutasamtakanna okkar sem formaður SSNE, samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Eftir áralangar tilraunir tókst okkur að sameina krafta landshlutasamtaka og atvinnuþróunarfélaga beggja vegna Vaðlaheiðarinnar. Það kostaði þrotlausa vinnu en afrakstur erfiðisins hefur nú birst okkur í kröftugu og markvissu starfi SSNE, þökk sé góðu samstarfi og frábæru starfsfólki.

SSNE hefur tekið þátt í fjölbreyttu samstarfi og staðið fyrir og styrkt fjölmörg verkefni. Svo nokkur dæmi séu tekin þá má nefna: Niceair; nýtt flugfélag, uppbyggingu velferðartækniklasa, Norðurslóðamiðstöð Íslands, Eimur; fyrir sjálfbæru samfélagi, listnám á háskólastigi og fjárfestahátíð á Siglufirði. Við hjá SSNE höfum tekið hlutverki okkar alvarlega er varðar samráð, aðhald og samstarf við ríkisvaldið, þar sem margvíslegur árangur hefur náðst. Þá hafa sveitarfélög nýtt sameiginlegan vettvang SSNE vegna ýmissa verkefna og má nefna að nú er unnið að gerð samgöngustefnu og innviðagreiningu, svæðisáætlun um meðhöndlun sorps, samstarfi safna og hagkvæmnimati á uppbyggingu líforkuvers.

Sem stjórnarformaður SSNE hef ég frá upphafi lagt ríka áherslu á sameiginlega hagsmuni í landshlutanum, samhliða því að taka tillit til ólíkra aðstæðna. Ómálefnanlegur hrepparígur þarf að heyra sögunni til, enda sjáum við að með því að nýta sameiginlegan slagkraft landshlutans þá erum við óstöðvandi. Það er hreinlega nauðsynlegt að á næsta kjörtímabili haldist pólitísk samstaða um að byggja ofan á þann trausta grunn sem við höfum lagt og býð ég fram krafta mína til að halda því verkefni áfram.

Höfundur er stjórnarformaður SSNE og oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri.




Skoðun

Sjá meira


×