Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkunni. Þar er haft eftir Vífli Ingimarssyni, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Orkunnar, að verslunin hafi verið lokuð síðustu vikurnar vegna framkvæmda þar sem breytingar hafi verið gerðar á innréttingum, baksvæði og tækjabúnaði.
Sömuleiðis hafi verið hannað nýtt útlit fyrir verslanir 10-11 og markaðsefni þar sem litapallettan hefur verið uppfærð.
„Við bætum við dökkgrænum og einkennandi lit en höldum samt alltaf í lime græna litinn sem hefur verið einkennandi fyrir verslanir 10-11 í áratugi,“ er haft eftir Brynju Guðjónsdóttur markaðsstjóra. Hún segir að næst verði unnið að endurbótum á versluninni í Austurstræti.
Verslunum 10-11 hefur fækkað mikið á síðustu árum og eru þær nú þrjár eftir – á Laugavegi, Austurstræti og svo í komusal Keflavíkurflugvallar.