Halldóra hefur þegar tilkynnt lögreglunni um eignaspjöllin. Hún segir, í samtali við Vísi, svo vera að börnunum sé brugðið, þau séu yfir sig hneyksluð á á þessum vandalisma. Leikskólinn hefur hingað til fengið að vera í friði þó sóðalegt veggjakrotið setji svip sinn á hverfið, enda blasir hann við íbúum í næstu húsum.

„Þetta er svo svekkjandi. Við höfum blessunarlega aldrei lent í einhverju svona áður. Ofboðsleg leiðindi að vera að eyðileggja hluti fyrir manni.“
Halldóra lýsir því að dótaskúrinn hafi verið opnaður, þar hafi dóti og munum barnanna verið rúttað út, „þrusað um allar jarðir, krotað á húsið, á dótaskúrinn okkar og sprautað á leikföng eins og slökkviliðsbílinn sem við erum með á lóðinni. Þar er spreyjað með fjólubláum lit „dick“. Og tómir brúsar út um allt,“ segir Halldóra sem að vonum er ósátt við þá sem þarna létu til sín taka við ömurleg skemmdarverkin.
Hún segist hafa sent skýrslu til lögreglunnar vegna málsins, tilkynnt um eignarspjöll og biðlar til nágranna að hafa auga með þessu athvarfi barnanna.