Politico greinir frá þessu og vísar í ónafngreinda heimildarmenn sem þekkja til málsins, en Schröder er með náin tengsl við ráðamenn í Moskvu.
Schröder hefur sætt harðri gagnrýni í heimalandi sínu eftir að hafa neitað að segja sig úr stjórnum rússneskra orkufyrirtækja eftir innrás Rússa í Úkraínu. Fjöldi starfsmanna skrifstofu Schröders ákvað að láta af störfum í síðustu viku vegna ákvörðunar Schröders að sitja áfram í stjórnum orkurisanna Rosneft og Gazprom.
Schröder var kanslari Þýskalands á árunum 1998 til 2005 og hefur auðgast mikið vegna stjórnarsetu sinnar eftir að kanslaratíð hans lauk.
Heimsókn Schröders til Moskvu kemur í kjölfar fundar hans og úkraínsks stjórnmálamanns sem á sæti í friðarsendinefnd landsins í Istanbúl í Tyrklandi.
Andrij Melnyk, sendiherra Úkraínu í Þýskalandi, lagði til í síðustu viku að Schröder gæti mögulegt haft milligöngu í mögulegum friðarviðræðum stjórnvalda í Rússlandi og Úkraínu.