Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, en Martin og félagar leiddu með fjórum stigum að fyrsta leikhluta loknum. Liðið hélt forystunni fram að hálfleikshléi, en staðan var 42-38, Valencia í vil þegar gengið var til búningsherbergja.
Það voru svo heimamenn í JL Bourg sem mættu grimmari til leiks í síðari hálfleik og liðið hafði níu stiga forskot þegar komið var að lokaleikhlutanum. Martin og félagar vöknuðu þá almennilega til lífsins og snéru taflinu sér í hag og unnu að lokum ellefu stiga sigur, 88-77.
Martin skoraði fimm stig fyrir Valencia en var með hvorki meira né minna en tólf stoðsendingar. Valencia situr nú á toppi riðilsins með tíu sigra í 14 leikjum, en Gran Canaria hefur unnið níu af 13 í öðru sæti. JL Bourg situr í áttunda sæti riðilsins með fimm sigra.