Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Þorstein Sigurðsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, en í fréttatilkynningu stofnunarinnar kemur fram að nýafstaðinn leiðangur rannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar þýði ráðgjöf um 800 þúsund tonna heildarkvóta. Það væri um 100 þúsund tonna lækkun frá útgefnum kvóta á yfirstandandi vertíð upp á 904 þúsund tonn.

Gunnþór Ingvason hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað, sem áður var búinn að áætla sextíu milljarða króna tekjur Íslendinga af loðnuvertíðinni, sagði í samtali við fréttastofu að svona kvótaminnkun geti þýtt lægri tekjur þjóðarbúsins sem nemur fjórum milljörðum króna.
Útgerðir eru strax farnar að bregðast við. Binni í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, sagðist vera búinn að hringja í alla skipstjórana sína og segja þeim að hætta strax veiðum og snúa í land. Hann vildi eiga nóg eftir af kvótanum til að veiða loðnuna síðar þegar hún verður orðin verðmætari og nálgast hrygningu en ekki eyða kvótanum til að veiða hana í bræðslu.

Í frétt Hafrannsóknastofnunar kemur fram að hafís út af Vestfjörðum hafi hindrað rannsóknaskipin í að mæla útbreiðslu loðnu á því svæði.
„Þess vegna telur Hafrannsóknastofnun nauðsynlegt að kanna það svæði frekar áður en lokaráðgjöf verður gefin út.“
Segir stofnunin að fyrirhugaður leiðangur gæti hafist í kringum 8. febrúar, háð veðri og hafísskilyrðum. Stefnt sé að kynningu niðurstaðna og lokaráðgjöf um viku síðar.
Forstjóri Hafrannsóknastofnunar kvaðst í beinni útsendingu Stöðvar 2 binda vonir við að leiðangurinn leiddi til þess að unnt yrði að tosa veiðiráðgjöfina upp í núgildandi kvóta.
Hér má sjá útsendinguna: