Bandaríkjamenn höfðu boðað til fundarins vegna herafla Rússa við landamærin að Úkraínu. Linda Thomas-Greenfield, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði að herflutningar Rússa á svæðinu væru þeir mestu sem hafi sést í Evrópu um áratuga skeið, að því er segir í frétt AP.
Kollegi hennar frá Rússlandi, Vasily Nebenzya, sagði hinsvegar að Bandaríkjamenn væru að ala á móðursýki og að afskipti þeirra af innanríkismálum Rússa væri óásættanleg. Rússar eru nú með um hundrað þúsund hermenn við landamærin að Úkraínu og óttast margir að innrás sé yfirvofandi.
Harðar viðskiptaþvinganir eru nú í undirbúningi af hálfu vesturveldanna sem talið er að muni bitna harkalega á háttsettum Rússum sem eru nánir Vladimír Pútín forseta.
Þrátt fyrir rifrildið í öryggisráðinu stendur til að halda viðræðum um málið áfram og munu utanríkisráðherrarnir Antony Blinken frá Bandaríkjunum og Sergei Lavrov frá Rússlandi ræða ástandið síðar í dag.