Ekki nóg með að leikurinn hafi verið upp á 5. sæti mótsins heldur gaf hann líka þátttökurétt á HM sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi á næsta ári.
„Árangurinn sem slíkur er góður en við erum – ég veit ekki hvort maður geti sagt að maður sér sáttur eftir svona tap eins og í dag. Hvað þá þegar við vorum með þetta í höndunum gegn Króötum, sá leikur situr í mér, því miður,“ sagði Ýmir Örn um frammistöðu íslenska liðsins á mótinu.
„Ég elska þessa stráka alveg út af lífinu. Þetta er þvílíkur hópur sem við erum með, samstaðan er ótrúleg. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta fyrir utanaðkomandi aðilum. Það er einhver tilfinning og augnablik með okkur, mér líður mjög vel innan vallar sem utan. Við vitum hvað við erum að gera og höldum áfram með það sem virkar. Erfitt að útskýra þetta nánar, það er eitthvað með okkur,“ sagði tilfinningaríkur Ýmir Örn einnig að leik loknum.
„Sú tilfinning er alveg æðisleg. Að fá að leiða þessa stráka út á völlinn er frábært, mikill heiður og líklega sá mesti heiður sem ég hef fengið þegar kemur að landsliðinu. Að fá að klæða sig í þessa treyju eru forréttindi og alls ekki sjálfsagður hlutur,“ sagði Ýmir Örn að endingu um tilfinninguna að bera fyrirliðaband Íslands í leik sem þessum.