Innlent

Rann­saka hvort reynt hafi verið að keyra á börn í Garða­bæ

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Atvikið átti sér stað fyrir utan heimili fjölskyldunnar síðasta laugardagskvöld um klukkan hálf tíu.
Atvikið átti sér stað fyrir utan heimili fjölskyldunnar síðasta laugardagskvöld um klukkan hálf tíu. vísir/egill

Nokkrar kærur hafa borist lög­reglu eftir að hópur krakka safnaðist saman fyrir utan heimili í Garða­bæ á laugar­dags­kvöld og hafði í hótunum við heimilis­fólkið. Heimilis­faðirinn hefur einnig verið kærður en hluti krakkanna sakar hann um að hafa reynt að keyra á sig.

Fjölskyldan mætti til lögreglu í morgun og lagði fram kærur meðal annars vegna þessara líflátshótana sem sonur þeirra hefur fengið.

Lögregla staðfestir þó við fréttastofu að búið væri að kæra á báða bóga, það er að segja að fjölskyldufaðirinn hafi einnig verið kærður vegna viðbragða sinna umrætt kvöld.

Þar verði sérstaklega rannsakað hvort það eigi við einhver rök að styðjast sem sumir krakkanna hafa haldið fram: að hann hafi reynt að keyra á þá.

Viðkvæmt mál

Málið á rætur sínar að rekja til myndbands sem fór í dreifingu á samfélagsmiðlum í byrjun síðustu viku þar sem 13 ára drengur er sakaður um alvarlegt athæfi. 

Þær ásakanir undu síðan upp á sig alla síðustu viku og varð hann fyrir gríðarlega miklu aðkasti í skólanum.

Það náði síðan hámarki í Garðabænum á laugardagskvöldið þegar nokkrir tugir krakka á unglingastigi höfðu safnast saman fyrir utan heimili hans og höfðu í hótunum við hann með ítrekuðum símhringingum og skilaboðum til allrar fjölskyldunnar.

Málið er auðvitað mjög flókið og viðkvæmt því hér eru ósakhæf börn til rannsóknar en lögregla mun rannsaka þetta allt saman í nánu samstarfi við barnaverndaryfirvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×