Kanye hefur um árabil talað fyrir því að Larry veðri látinn laus en hann er einn stofnanda gengisins Gangster Disciples í Chicago, heimaborg Kanye. Drake hefur einnig beitt sér fyrir þessu nýlega og svo virðist sem rappararnir tveir hafi lagt ágreiningsefni sín til hliðar og sameinað krafta sína í baráttunni.
Kanye birti myndband af sér fyrr í þessum mánuði þar sem hann biðlaði til Drake að koma fram með sér á tónleikum fyrir Larry. „Bæði ég og Drake höfum skotið fast hvor á annan en nú er tími til að leggja það allt til hliðar,“ sagði Kanye í myndbandinu sem má sjá hér að neðan:
Það var svo á þriðjudaginn að þeir birtu báðir myndir og myndbönd af sér saman í partýi á heimili Drake í Toronto í Kanada. Með þeim var meðal annars skemmtikrafturinn Dave Chappelle, sem hélt ræðu í tilefni sáttastundarinnar og sagði hana sögulega.
Og í dag birti Kanye síðan auglýsingu fyrir tónleikana sem þeir Drake ætla að halda saman þann 9. desember til að vekja athygli á málefninu.
Hefur setið inni tvo þriðju hluta ævinnar
Larry Hoover var dæmdur í fangelsi árið 1973 og er nú kominn með samtals sex lífstíðardóma á sig; fyrst fyrir að hafa fyrirskipað morð og síðan hefur hann fengið á sig fleiri dóma sem tengjast hans þátttöku innan gengisins frá Chicago. Árið 1995 var hann síðan dæmdur í 150 til 200 ára fangelsi fyrir að hafa myrt 19 ára eiturlyfjasala, eftir sautján ára rannsókn á hans gjörðum.

Hann er einn stofnenda gengisins en Kanye hefur sjálfur tengingar inn í það enda margir vinir hans hluti af því.
Síðan hafa margir talað fyrir frelsi Larry sem nú er orðinn sjötugur að aldri og vilja menn meina að hann hafi hlotið allt of þunga dóma fyrir glæpi sína. Hann hefur setið inni í fangelsi í 48 ár en var dæmdur þegar hann var 23 ára gamall.
Hann hefur þannig eytt tveimur þriðju hlutum lífs síns innan veggja fangelsis. Til samanburðar er hefðbundinn fangelsisdómur á Íslandi fyrir manndráp 16 ár.