Þetta segir Tómas Guðbjarsson, yfirlæknir á skurðsviði Landspítalans og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, í aðsendri grein á Vísi.
Þar segir hann samtök atvinnulífsins og ákveðna stjórnmálamenn hafa kallað eftir fyrirsjáanleika en skynsemin sé merkilega fyrirsjáanleg.
„Nýlega kölluðu tveir ráðherrar eftir því að allar Covid-takmarkanir yrðu afnumdar hér á landi – allt í nafni einstaklingsfrelsis. Var óspart vísað til Dana og Norðmanna sem fyrirmynda – því þar væri lífið leikur,“ segir Tómas.

Til allrar hamingju hafi landamærin ekki verið opnuð upp á gátt en engu að síður látið undan og öðrum takmörkunum aflétt of hratt. Afleiðingarnar blasi við í sögulega hárri tíðni sýkinga.
Tómas segir Landspítalann enn og aftur kominn á hættustig, gjörgæsludeildir fullar upp í rjáfur og stöðuna víða mjög þunga.

„Sama þróun hefur orðið í fyrirmyndarlöndunum Danmörku og Noregi, sem í skyndi hafa innleitt Covid-takmarkanir. Sunnar í álfunni hefur af illri nauðsyn þurft að grípa til mun harðari aðgerða, eins og í Þýskalandi, Austurríki og Hollandi,“ segir Tómas.
„Afleiðing hárrar smittíðni hér á landi endurspeglast í þeirri staðreynd að önnur ríki vara nú þegna sína við ferðalögum til Íslands. Er þetta fyrirsjáanleikinn sem ferðaþjónustan og samtök atvinnurekanda voru að auglýsa eftir, og það frá sjálfum ráðherra málaflokksins? Orðum fylgir ábyrgð.“