Heilbrigðisráðherra greindi fyrst frá vilja sínum til að koma á fót sérstakri Covid-einingu innan Landspítalans í byrjun ágúst.
Verkefnið er í raun aðeins flutningur á Covid-göngudeildinni, úr húsnæði sem er staðsett fyrir utan Landspítalann í Fossvogi og inn í aðalbygginguna.
Myndi leysa vandamál og skapa legurými
Hin göngudeildin hefur reynst spítalanum ágætlega en var þó hugsuð sem bráðabirgðalausn.
„Vandinn er hins vegar sá að það er bágborin vinnuaðstaða fyrir starfsfólk, það skortir salerni og það sem meira er að ef að myndgreiningar er þörf eins og oft er þegar um veika einstaklinga er að ræða þá þarf að flytja þá hingað í aðalbygginguna,“ Runólfur Pálsson, framkvæmdastjóri meðferðasviðs Landspítala, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Þannig þetta myndi leysa ýmis mál og það myndu líka skapast ákveðin legurými með þessum hætti.“
En hefur ekkert gerst í þessu verkefni frá því að heilbrigðisráðherra minntist á það fyrir kosningar?
„Nei, í rauninni ekki. Framkvæmdastjórn spítalans lagði fram ákveðna lausn miðað við þá aðstöðu sem við höfum hérna í Fossvogi og setti það fram í formi minnisblaðs til heilbrigðisráðuneytisins og ég held að málið sé til skoðunar þar,“ segir Runólfur.
Hefði getað verið tilbúið í byrjun næsta árs
Umrætt minnisblað var sent um miðjan ágúst en þar er gert ráð fyrir að framkvæmdirnar taki um 5 til 7 mánuði og kostaði 540 milljónir.
Hefði verið ráðist í þær fljótt ætti deildin því að vera orðin tilbúin til notkunar á fyrstu þremur mánuðum næsta árs en nú er ljóst að ef verður af verkefninu muni framkvæmdunum ekki ljúka fyrr en um mitt næsta ár eða síðar.
Í tillögu spítalans er meðal annars lagt til að því rými sem nú húsir sjúkraþjálfun, skrifstofu prests og kapellu verði breytt og nýtt undir Covid-sjúklinga. Þetta er talinn hentugasta staðsetning fyrir deildina því hægt yrði að ganga beint inn í nokkur rýmanna, sem eru með sérinngang, og sleppa þannig við umgang smitaða einstaklinga í gegn um sameiginleg rými spítalans.
Með deildinni myndu allt að sjö ný legurými bætast við spítalann en til samanburðar liggja 25 með Covid-19 þar inni í dag.
Verkefnið myndi því auka getu spítalans til að sinna faraldrinum nokkuð.