Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusviðs Reykjanesbæjar, segir við Vísi að áhersla hafi verið lögð á að bráðabirgðahúsnæðið væri nærri Myllubakkaskóla í miðbæ Keflavíkur. Þannig verða nemendur í 1. og 2. bekk hýstir í færanlegum kennslustofum sem eru þegar á lóð Myllubakkaskóla. Hægt verður að nýta lóða skólans um umhverfi sem þeir eru vanir áfram.
Nemendur í 3. og 4. bekk fara í gamla barnaskólann við Skólaveg sem bærinn hefur nýtt undir fundahald og námskeið undanfarin ár. Helgi segir bygginguna elsta skóla bæjarins en að henni hafi verið haldið vel við.
Fimmtu og sjöttu bekkingar verða á hæðinni fyrir ofan Bónus í gamla Félagsbíó nærri ráðhúsinu. Helgi segir það eina húsnæðið sem bærinn þarf að leigja vegna flutningsins. Unglingadeildinni verður komið tímabundið fyrir í Íþróttaakademíunni og Reykjaneshöll.

Til stendur að flytja starfsemina dagana 12.-14. nóvember. Fræðsluráð samþykkti að bæta tveimur starfsdögum við skóladagatal Myllubakkaskóla dagana 15. og 16. nóvember vegna flutninganna. Um 340 nemendur og sjötíu starfsmenn eru við Myllubakkaskóla.
Helgi segir að vonir standi til að úttekt Eflu á húsnæði Myllubakkaskóla ljúki fyrir lok nóvember og að þá verði mögulegt hægt að senda einhverja hópa nemenda til baka. Ekkert sé þó gefið í þeim efnum.