Málið er þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Í ákæru kemur fram að Árni eigi að hafa í fimmtán tilvikum á árunum 2018 til 2019 nýtt fjármuni félagsins til greiðslu eigin reikninga og með því að millifæra af bankareikningi ÍR og inn á eigin bankareikning.
Sé litið til þess ákæruliðs sem snýr að fjárdrætti má sjá að Árni hafi greitt reikninga í eigin þágu af bankareikningi ÍR, samtals að fjárhæð 661 þúsund krónur. Var um fjórar færslur að ræða, sú hæsta í Ormsson fyrir 320 þúsund krónur.
Auk þess á hann á árunum 2018 og 2019 í ellefu tilvikum að hafa millifært af bankareikningi ÍR og inn á eigin reikning, samtals fyrir 2,5 milljónir króna. Námu færslurnar á bilinu 55 til 360 þúsund króna.
Golfferð, hótel og málmsteypa
Árni er einnig ákærður fyrir umboðssvik, með því að hafa misnotað aðstöðu sína sem framkvæmdastjóri og í alls 28 skipti notað kreditkort félagsins heimildarleysi til kaupa á vörum og þjónustu til eigin atvika.
Færslurnar námu á bilinu fimm til 351 þúsund, samtals tæpar 1,5 milljónir króna og var kortið meðal annars nýtt til greiðslu reikninga vegna golfferðar, í golfverslun, hótelum og málmsteypu.
Þá er Árni ákærður fyrir peningaþvætti, með því að hafa aflað sjálfum sér ávinnings af fyrrgreindum brotum, samtals að fjárhæð 4,7 milljónir króna og í kjölfarið geymt eða nýtt ávinninginn í eigin þágu. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Hætti í nóvember 2019
Greint var frá því í lok janúar á síðasta ári að aðalstjórn ÍR hefði þá haft meintan fjárdrátt starfsmanns félagsins til rannsóknar en upp hafði komist um fjárdráttinn í byrjun vetrar.
Árni hafði þá látið af störfum eftir fund aðalstjórnar og Árna um miðjan nóvember 2019.