„Já ég get staðfest að ég ætla að gefa kost á mér sem forseti Golfsambandsins á næsta Golfþingi sem fram fer dagana 19.-20. nóvember. Ég sagði stjórnarmönnum það þegar ljóst var að Haukur Örn hyggðist ekki gefa kost á sér áfram. Við kylfingar megum vera Hauki Erni afar þakklát fyrir hans góðu störf í okkar þágu og við höfum unnið vel saman. Það verður missir af honum.“
Hulda hefur spilað golf í um tuttugu ár og er íþróttin mikið fjölskyldusport. Hún hefur setið í stjórn GSÍ frá árinu 2017, nú sem formaður Markaðs- og kynningarnefndar sem einbeitir sér að útbreiðslu íþróttarinnar.
Unnið að útbreiðslu golfsins
„Sjálf finn ég að mig langar að halda áfram og það er eru verðug verkefni í að fylgja eftir og halda áfram innleiðingu stefnu sambandsins sem var útskrifuð í fyrra og gildir til ársins 2027. Þar er mjög skýrt hvað telst til kjarnastarfsemi en þar er fókus á mótahaldið, landsliðsmál og útbreiðsluna.“
Þannig vilji hún halda áfram að efla golfíþróttina enn frekar, tryggja áframhaldandi uppgang hennar.
„Halda áfram að sækja ungt fólk, tryggja nýliðun og auka fjölbreytni í íþróttinni í takt við stefnu sambandsins. Einnig hef ég verið að vinna í að efla sjálfbærnivinnu sambandsins samhliða stefnunni og það verður partur af útbreiðslunni.
Unnið með ungum kylfingum
Auk þess er sambandið 80 ára á næsta ári og það er mikilvægt í mínum huga að halda sögu sambandsins á lofti og þakka öllum þeim sem hafa lagt endalausa sjálfboðavinnu af mörkum.“
Hulda hefur farið fyrir vinnu og leiðir verkefni Heimsmarkmiðanna í tengslum við stefnu GSÍ og sjálfbærni. Þá hefur hún starfað sem sjálfboðaliði Nesklúbbsins til fjölda ára og verið mjög virk í öllu starfi klúbbsins. Hún hefur persónulega reynslu af Sveitakeppni golfklúbba, verið ráðgefandi í styrkja- og kostunarmálum atvinnukylfinga og unnið með nokkrum þeirra í verkefnum bæði hér heima og erlendis.
Þá hefur Hulda kennt útskriftarhópum í PGA skólanum um mörkun og markaðssetningu, fór fyrir heimsókn Anniku Sörenstam til landsins árið 2016 sem miðaði meðal annars að valdeflingu ungra kylfinga. Hulda hefur farið utan sem fararstjóri í golfferðis og verið viðriðin íþróttir frá unga aldri. Hún á meðal annars að baki landsleiki í handbolta sem unglingur.